Verst að annað liðið fellur úr leik

Ejub Purisevic, þjálfari Víkinga.
Ejub Purisevic, þjálfari Víkinga. mbl.is/Árni Sæberg

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings frá Ólafsvík, var svekktur eftir að hans menn töpuðu, 9:8, gegn Stjörnunni eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar í Garðabæ í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með strákana. Mér finnst bara hundleiðinlegt að spila nánast allan daginn og tapa síðan. Einhver þurfti að tapa,“ sagði Ejub við mbl.is eftir leikinn.

„Mér fannst við eiga að klára leikinn í venjulegum leiktíma. Þeir voru ekki að skapa mikla hættu en þeir skoruðu mark þegar miðvörðurinn okkar (Tomasz Luba) var utan vallar. Mér fannst við eiga að bregðast betur við markinu þeirra en við áttum fína möguleika hér í kvöld. Við áttum virkilega góðan leik og ég get varla verið svekktur út í strákana,“ bætti Ejub við.

Björn Pálsson fór meiddur af leikvelli í framlengingunni eftir höfuðhögg en kom aftur inn á nokkrum mínútum síðar. Þorsteinn Már Ragnarsson var einnig utan vallar í framlenginunni eftir að hafa fengið högg á nefið. Ejub segir að þetta hafi tekið á og þreytt hans menn:

„Við spiluðum talsvert manni færri. Það er ekki skrýtið þótt við höfum verið þreyttir. Þorsteinn er nefbrotinn, held ég. En það er verst við svona leik að annað liðið þurfi að detta úr leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert