Þjálfari Selfoss skoraði fyrir HK/Víking

Valorie O'Brien, þjálfar í úrvalsdeild og spilar í 1. deild.
Valorie O'Brien, þjálfar í úrvalsdeild og spilar í 1. deild. Ljósmynd/Guðmundur Karl

HK/Víkingur vann í kvöld öruggan sigur á Skínanda úr Garðabæ, 4:1, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna á Samsung-vellinum.

Valorie O'Brien, þjálfari úrvalsdeildarliðs Selfyssinga, leikur með HK/Víkingi og hún innsiglaði sigur liðsins með fjórða markinu. Áður höfðu Margrét Eva Sigurðardóttir, Björk Gunnarsdóttir og Guðrún Björg Eggertsdóttir skorað.

Í uppbótartíma náði Monika Hlíf Sigurhjartardóttir að svara fyrir lið Skínanda sem er fyrst og fremst skipað leikmönnum úr 2. og 3. flokki Stjörnunnar.

HK/Víkingur hefur unnið tvo fyrstu leiki sína og er með 6 stig eins og ÍR á toppi A-riðils.

Víkingur frá Ólafsvík hefur heldur ekki tapað stigi, er með 3 stig, en leik liðsins við Hvíta riddarann sem fram átti að fara í kvöld var frestað vegna veðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert