Blómstrum bara sem lið

Jóhann Berg Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason ræða málin á …
Jóhann Berg Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason ræða málin á landsliðsæfingu. mbl.is/Styrmir Kári

„Ef ég væri að fara á þetta mót til að sýna sjálfan mig og gera allt upp á eigin spýtur myndi ekkert ganga. Þetta er liðsíþrótt og okkur gengur best þegar við spilum sem lið. Við höfum sýnt það í undankeppninni og ef liðið er að spila vel blómstrar hver og einn. Ég hef engar áhyggjur af öðru.“

Þetta sagði Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, þegar Morgunblaðið ræddi við hann á æfingu á Laugardalsvelli.

Jóhann er líklegur til að fá sæti í byrjunarliði Íslands þegar það mætir Portúgal í fyrsta leik á EM í Frakklandi, eftir 17 daga. Hann missti af byrjun undankeppninnar vegna meiðsla en lék síðustu sex leiki hennar frá upphafi til enda. Veturinn hjá honum var súrsætur, en Jóhann féll niður í ensku C-deildina með Charlton þrátt fyrir að hafa verið stoðsendingakóngur B-deildarinnar, með 11 stoðsendingar. 

Hann skoraði auk þess sex mörk og kom því að 17 af 40 mörkum Charlton með mjög afgerandi hætti.

Jóhann er ákveðinn í að finna sér nýtt félag í sumar og mun ekki eiga í vandræðum með það, en hyggst bíða fram yfir Evrópumótið með að taka ákvörðun í þeim efnum. Þannig er mótið á vissan hátt „auglýsingagluggi“ fyrir kantmanninn sparkvissa, sem vill auðvitað hafa sem besta kosti til að velja úr, en eins og hann segir sjálfur hér að ofan mun það ekki trufla leik hans:

„Auðvitað vill maður spila vel, eins og allir á þessu móti, og allir í liði okkar geta komist á stærra svið en þeir eru á í dag. Það hlýtur að vera markmiðið hjá öllum en að sama skapi gerum við það aðeins sem lið. Þannig geta allir blómstrað,“ sagði Jóhann þegar hann ræddi við blaðamann á hlaupabrautinni á Laugardalsvelli. Eins og aðrir leikmenn íslenska liðsins virkaði hann mjög afslappaður þó að stutt væri í stærstu stund Jóhanns og flestra annarra leikmanna íslenska liðsins.

Sjá samtal við Jóhann Berg í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert