„Einföldu hlutirnir skipta miklu máli“

Selfoss tapaði fyrir Breiðablik í dag en Valorie O'Brien, þjálfari …
Selfoss tapaði fyrir Breiðablik í dag en Valorie O'Brien, þjálfari liðsins, er þó bjartsýn á framhaldið.

„Við litum oft á tíðum mjög vel út í þessum leik og spiluðum góða knattspyrnu. Okkur var hins vegar refsað þegar við gerðum mistök og auðvitað er þetta svekkjandi niðurstaða,“ sagði Valorie O'Brien, þjálfari Selfoss, eftir 2:1 tap gegn Breiðabliki á heimavelli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag.

Selfoss hefur nú unnið tvo leiki í deildinni og tapað tveimur, gegn Stjörnunni og Breiðabliki.

„Við erum búnar að tapa tveimur leikjum og en standa okkur vel í þeim báðum og það er svekkjandi að fá ekki stig út úr þessum leikjum. Við vorum minntar á það í dag að einföldu hlutirnir skipta miklu máli. Við eltum ekki okkar mann eða höldum ekki pressu og um leið og við hættum að gera það sem við eigum að gera þá er okkur refsað. Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga og vinna í núna í hléinu,“ sagði O'Brien í samtali við mbl.is.

Selfoss vann ÍA á þriðjudaginn og Selfossþjálfarinn viðurkenndi að leikmenn hafi verið farnir að finna fyrir þreytu undir lok leiks í dag.

„Þetta er fyrsta vikan sem við eigum tvo leiki í sömu vikunni og það sást alveg á forminu á liðinu í dag að það var stutt á milli leikja. Vindurinn spilaði líka inn í en við höfum spilað í meiri vindi og staðið okkur betur þannig að veðrið var ekki vandamálið, við vorum vandamálið.“

Selfoss stjórnaði leiknum í seinni hálfleik en liðið var ekki nógu beitt fram á við og tókst aðeins að skora einu sinni. Það dugði ekki til.

„Nei, við höfðum yfirhöndina allan seinni hálfleikinn og framan af fyrri hálfleik. Markvörðurinn okkar kom ekki við boltann fyrstu fimmtán mínútur leiksins og þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum í seinni hálfleik. Við áttum aðeins í vandræðum sendingarlega í sókninni og fundum ekki alltaf taktinn þannig að okkur tókst ekki að skapa nógu góð færi,“ sagði O'Brien að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert