„Fundum gullnámu í Ólafsvík“

Stemningin er góð í liði FH að sögn fyrirliðans.
Stemningin er góð í liði FH að sögn fyrirliðans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum trú á okkur og hlustum ekki á eitthvað fjölmiðlatal,“ sagði Maggý Lárent­sín­us­dótt­ir, fyrirliði FH, og glotti spurð um velgengni nýliðanna í fyrstu umferðunum í Pepsí-deild kvenna í knattspyrnu í dag. 

FH er með sjö stig eftir fjórar umferðir en þurfti þó að sætta sig við 1:0 tap fyrir Val á Hlíðarenda í 4. umferð í dag. „Þetta var ekki alveg okkar besti dagur. Við vissum svo sem fyrirfram að Valur yrði mikið með boltann enda frábært lið en við hefðum átt að vera nær mönnum. Þetta var ekki alveg eins gott og það sem við höfum gert í síðustu leikjum. Auk þess er ansi ódýrt að fá á sig mark eftir hornspyrnu.

Var þetta fyrsta markið sem FH fær á sig í sumar eftir að hafa haldið hreinu í rúmar 300 mínútur. Var legið yfir varnarleiknum í allan vetur? „Nei nefnilega ekki. Alls ekki. Við erum bara svo mikið lið. Liðsheildin er mikil og stemningin í liðinu er góð. Svo fundum við gullnámu í Ólafsvík (Jeanette Williams markvörður) og hún er búin að vera frábær,“ sagði Maggý við mbl.is í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert