Öruggt hjá Gróttu - Afturelding efst

Grótta vann Völsung nokkuð örugglega.
Grótta vann Völsung nokkuð örugglega. Þórður Arnar Þórðarson

Afturelding er eina liðið með fullt hús stiga í 2. deild karla í knattspyrnu en Grótta, KV og Afturelding náðu öll í góða sigra í fjórðu umferð deildarinnar í dag.

Höttur og ÍR gerðu 1:1 jafntefli á Fellavelli í dag. Jón Gísli Ström kom ÍR-ingum á bragðið á 32. mínútu en Jordan Chase Tyler jafnaði metin fyrir Hött undir lok fyrri hálfleiks. Lokatölur því 1:1 fyrir austan. Jón Gísli hefur skorað öll fjögur mörk ÍR í deildinni það sem af er tímabilinu.

Afturelding vann þá Magna 2:0 en leikið var í Mosfellsbæ. Nik Anthony Chamberlain gerði bæði mörk Aftureldingar. Fyrra markið kom úr víti á 21. mínútu en seinna markið kom undir lok leiksins. Fjórði sigur Mosfellinga í jafnmörgum leikjum en nýliðarnir frá Grenivík töpuðu sínum fyrsta leik.

Grótta fór létt með Völsung, 4:0, á gervigrasvelli Framara en þar spila Seltirningar heimaleiki sína í bili vegna breytinga á heimavelli þeirra á Nesinu. Viktor Smári Segatta gerði tvö mörk fyrir Gróttu og þá skoruðu þeir Gunnar Birgisson og Sigurvin Reynisson einnig.

KV vann þá Vestra 3:1 á Torfnesvelli á Ísafirði, í leik sem þurfti að seinka talsvert þar sem ekki var flugfært vestur. Ólafur Frímann Kristjánsson kom KV yfir áður en Hjalti Hermann Gíslason jafnaði. Viktor Örn Guðmundsson kom KV yfir tuttugu mínútum fyrir leikslok og þá kláraði Brynjar Gauti Þorsteinsson dæmið með þriðja marki KV í leiknum. Lokatölur 3:1.

KF og Sindri mætast í Ólafsfirði á morgun og fjórðu umferð lýkur á mánudagskvöld þegar Njarðvík fær Ægi í heimsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert