Fyrsta tap FH í deildinni

Bryndís Hrönn Kristinsdóttir úr FH með boltann í leiknum í …
Bryndís Hrönn Kristinsdóttir úr FH með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Valur og FH mættust í fjórðu umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, á Valsvellinum kl. 14. Valur hafði betur 1:0 og er án taps en FH tapaði sínum fyrsta deildarleik í sumar. Raunar var þetta einnig fyrsta markið sem FH fær á sig. 

Miðvörðurinn Elísa Viðarsdóttir skoraði eina mark leiksins með skalla á 35. mínútu eftir hornspyrnu frá Rúnu Sif Stefánsdóttur. 

Valur hefur átta stig eftir tvö jafntefli og tvo sigra en FH er með sjö stig eftir tvo sigra, eitt jafntefli og eitt tap. 

Sigur Vals var sanngjarn en liðið náði strax í upphafi ágætum tökum á leiknum og var mun meira með boltann. Valur hefði getað skorað fleiri mörk en lið FH getur varist vel eins og markatala liðsins sýnir og Jeannette Williams stóð fyrir sínu í marki FH. 

Valskonur leituðu mjög að Elínu Mettu á hægri kantinum og skapaði það oft hættu en herslumuninn vantaði oft hjá Valskonum að ljúka sóknunum með marki. 

Fyrir vikið var staðan einungis 1:0 þótt Valsliðið hefði undirtökin og spennan var því til staðar til leiksloka. FH-liðið færði sig aðeins upp á skaftið síðasta korterið en náði ekki að skapa sér almennileg marktækifæri og þurfti að sætta sig við sitt fyrsta tap. 

Valur 1:0 FH opna loka
90. mín. Aftur sleppur Valskona inn fyrir vörn FH í skyndisókn. Að þessu sinni Hlín eftir góðan samleik við Margréti og stungusendingu fyrirliðans. Hlín var ein á móti Williams og ætlaði að leika á hana en Williams henti sér niður og hirti boltann. Líklega engin heppni að þessi markvörður hefur bara fengið á sig eitt mark í fjórum fyrstu leikjunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert