Víðir, Vopnfirðingar og Vængir á flugi

Leikmenn Einherja fagna sigri á Vopnafjarðarvelli.
Leikmenn Einherja fagna sigri á Vopnafjarðarvelli. Ljósmynd/Facebook-Einherji

Einherji frá Vopnafirði, Víðir úr Garði og Vængir Júpíters úr Grafarvogi eru öll með fullt hús stiga eftir þrjár fyrstu umferðirnar í 3. deild karla í knattspyrnu og unnu öll góða sigra í dag.

Einherji tók á móti nýliðum Þróttar úr Vogum í sannkölluðum toppslag á Vopnafirði og höfðu heimamenn sigur, 3:2, í hörkuleik. Sverrir Hrafn Friðriksson, fyrirliðinn Sigurður Donys Sigurðsson og búlgarski kantmaðurinn Todor Hristov skoruðu fyrir Einherja en Kristinn Aron Hjartarson og Aron Elfar Jónsson fyrir Vogamenn sem töpuðu sínum fyrstu stigum.

Víðismenn eru á mikilli siglingu í deild og bikar og varnarleikurinn er greinilega í lagi hjá gamla varnarjaxlinum úr FH, Tommy Nielsen, sem þjálfar liðið. Víðir hefur ekki fengið á sig mark í deildinni og vann KFR örugglega á heimavelli, 4:0. Helgi Þór Jónsson hefur skorað grimmt í byrjun tímabils og hann gerði tvö markanna en Milan Tasic og Tómas Jónsson eitt hvor.

Vængir Júpíters, sem leika í fyrsta sinn í 3. deild eftir að hafa unnið 4. deildina í fyrra, eru með 9 stig eftir þrjá leiki og þeir unnu KFS frá Vestmannaeyjum 2:1 á gervigrasvelli Fjölnis. Ólafur Árni Hall skoraði tvisvar á fyrstu 20 mínútunum. Anton Bjarnason minnkaði muninn fljótlega fyrir Eyjamenn og þar við sat.

Tindastóll gerði góða ferð til Dalvíkur og vann þar heimamenn í Dalvík/Reyni 3:0 en þessi lið féllu bæði úr 2. deildinni í fyrra. Ragnar Þór Gunnarsson, sem er í láni frá Selfossi, Benjamín Gunnlaugarson og Bandaríkjamaðurinn Kenneth Hogg gerðu mörk Stólanna.

Kári frá Akranesi, undir stjórn Sigurðar Jónssonar, vann Reyni suður í Sandgerði, 4:2, í líflegum leik. Tryggvi Hrafn Haraldsson, lánsmaður frá ÍA sem lék nokkra leiki í úrvalsdeildinni, skoraði þrennu fyrir Kára en hann er sonur Haralds Ingólfssonar, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumanns. Sindri Snæfells Kristinsson gerði líka mark fyrir Kára en Þorsteinn Þorsteinsson og Birkir Freyr Sigurðsson skoruðu fyrir Reyni.

Deildin hefur heldur betur skipst í tvennt eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Víðir, Einherji og Vængir Júpíters eru öll með 9 stig, Þróttur Vogum, Tindastóll og Kári eru öll með 6 stig, en hin fjögur liðin, Dalvík/Reynir, Reynir Sandgerði, KFR og KFS, hafa öll tapað öllum sínum leikjum.

Helgi Þór Jónsson fagnar öðru marka sinna fyrir Víði gegn …
Helgi Þór Jónsson fagnar öðru marka sinna fyrir Víði gegn KFR í dag. Ljósmynd/Facebook-Víðir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert