Sögulegt sigurmark Hörpu

Harpa Þorsteinsdóttir í leik með Stjörnunni í vor.
Harpa Þorsteinsdóttir í leik með Stjörnunni í vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Harpa Þorsteinsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, náði stórum áfanga í markaskorun í gær þegar hún tryggði Stjörnunni góðan útisigur á ÍBV, 1:0, í fjórðu umferð Pepsi-deildar kvenna.

Harpa skoraði þar sitt 155. mark í efstu deild og er þar með orðin þriðja markahæst í deildinni frá upphafi. Hún fór uppfyrir tvær miklar markadrottningar en þær Ásta B. Gunnlaugsdóttir og Helena Ólafsdóttir skoruðu báðar 154 mörk á sínum tíma.

Þar með eru það bara Olga Færseth og Margrét Lára Viðarsdóttir sem hafa skorað fleiri mörk en Harpa frá því Íslandsmót kvenna hófst árið 1972. Olga er langmarkahæst en hún skoraði hvorki fleiri né færri en 269 mörk, og Margrét Lára er komin aftur í deildina eftir sjö ára fjarveru og hefur þegar bætt við tveimur og er komin með 177 mörk.

Ellefu konur hafa skorað meira en 100 mörk í deildinni og þær eru eftirtaldar:

269 Olga Færseth
177 Margrét Lára Viðarsdóttir
155 Harpa Þorsteinsdóttir
154 Ásta B. Gunnlaugsdóttir
154 Helena Ólafsdóttir
148 Hrefna Jóhannesdóttir
138 Laufey Sigurðardóttir
135 Ásthildur Helgadóttir
109 Rakel Hönnudóttir
107 Hólmfríður Magnúsdóttir
104 Kristín Ýr Bjarnadóttir

Harpa náði í leiðinni að verða fjórða leikjahæst í deildinni frá upphafi en því sæti deilir hún með tveimur öðrum. Sjö konur hafa spilað meira en 200 leiki í deildinni og þær eru eftirtaldar:

233 Sigurlín Jónsdóttir
220 Auður Skúladóttir
217 Olga Færseth
215 Harpa Þorsteinsdóttir
215 Guðrún Jóna Kristjánsdóttir
215 Rakel Logadóttir
212 Sandra Sigurðardóttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert