Þeir áttu skilið að vinna

Haukur Páll (með umbúðir um höfuðið) fylgist með Antoni Ara, …
Haukur Páll (með umbúðir um höfuðið) fylgist með Antoni Ara, markverði Vals, grípa boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, var brúnaþungur eftir 2:1-tap Vals gegn KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Haukur skoraði mark Vals á lokamínútu leiksins en Valur er í 9. sæti deildarinnar, með sjö stig.

„Þeir áttu skilið að vinna en þeir voru betri en við. Aðalástæðan fyrir því var að við vorum of langt frá þeim, gáfum þeim of mikinn tíma á boltann og þeir fengu að spila sinn leik. Við hefðum betur verið aðeins nær þeim í okkar pressu,“ sagði Haukur Páll við mbl.is eftir leikinn í Vesturbænum í kvöld.

„Mér fannst við koma okkur í ákjósanlegar stöður til að búa til færi en seinasta sendingin klikkaði í dag. Það er óvanalegt hjá okkur þar sem við erum búnir að skapa okkur fullt af færum í byrjun móts í öllum okkar leikjum. Við sköpuðum ekki nóg í dag,“ bætti Haukur Páll við.

Fyrirliðinn hefur ekki áhyggjur þótt Valur sé eingöngu með sjö stig, þótt hann væri til í þau fleiri. „Auðvitað vildum við vera með fleiri stig, það er alveg klárt. Við erum ekkert að pæla of mikið í því heldur svekkjum okkur í kvöld og förum svo að undirbúa okkur fyrir næsta leik,“ sagði Hakur Páll en Valur tekur á móti Stjörnunni í næstu umferð eftir viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert