Þeir voru báðir brosandi

Ragnar Pétursson.
Ragnar Pétursson. mbl.is/Golli

„Ég sá þetta og mér fannst þetta ekki vera rautt spjald,“ sagði Ragnar Pétursson, miðjumaður Þróttar R., sem átti góðan leik gegn ÍBV í Pepsi-deildinni í dag en gat þó ekki komið í veg fyrir 1:0-tap.

Vendipunktur leiksins var rauða spjaldið sem Hallur Hallsson, fyrirliði Þróttar, fékk fyrir að slá laust í pung Mikkel Maigaard, á 39. mínútu, í kjölfar þess að Maigaard hafði brotið á Halli.

Sjá einnig: „Hann sló mig í punginn“

„Má ekkert? Hann potar aðeins í hann. Þeir voru meira að segja báðir brosandi. Dómarinn þarf bara aðeins að skynja hvað er í gangi. Það er annað ef einhver fer í jörðina en það voru allir hlæjandi yfir þessu. Þess vegna fannst mér þetta fáránlegt. En þetta var líka óþarfi, ég veit það alveg. Ef hann hefði sleppt þessu þá hefði þetta aldrei verið rautt spjald,“ sagði Ragnar, sem var ánægður með spilamennsku Þróttara, manni færri:

„Mér fannst við bregðast mjög vel við og vera betri en þeir. Við vorum inni í leiknum fram á síðustu sekúndu. Við erum bara ekki að nýta færin okkar nógu vel frammi. Við fengum 2–3 færi í fyrri hálfleik sem við hefðum alveg getað klárað, og það hefði breytt leiknum algjörlega,“ sagði Ragnar. Í staðinn fékk Þróttur á sig mark snemma í seinni hálfleik, þegar fyrirgjöf Maigaards endaði í markinu.

„Þetta er mjög sárt, sérstaklega því þeir fengu ekkert í þessum leik. Boltinn lak einu sinni í markið. Það er ótrúlega sárt að tapa á svona marki eftir svona frammistöðu. Ég er sáttur með okkar leik,“ sagði Ragnar.

„Það var ansi mikill hiti í þessum leik eins og sást, en mér fannst dómarinn leyfa allt of lítið flæði. Hann flautaði á allt, báðum megin, og það komst mjög sjaldan almennilegur taktur í leikinn. En mér fannst við samt gera vel. Við vildum koma í seinni hálfleik og svara fyrir okkur og mér hefur fundist vanta svona stöðugleika í okkar frammistöðu. Í síðasta leik gegn Val vorum við fínir fyrstu 20 mínúturnar, fengum á okkur mark og hrundum þá gjörsamlega. Núna fengum við á okkur mark en héldum alveg fókus og vorum að skapa færi til að jafna metin fram á lokamínútu. Við ætlum að ná meiri stöðugleika í okkar frammistöðu og ég held að það séu bara bjartir tímar fram undan,“ sagði Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert