Þetta eru verstu töpin

Ármann Smári Björnsson, fyrirliði ÍA.
Ármann Smári Björnsson, fyrirliði ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

"Þetta eru verstu töpin," sagði Ármann Smári Björnsson, fyrirliði Skagamanna, við mbl.is eftir að Víkingar úr Reykjavík lögðu þá að velli, 3:2, í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld með því að skora sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.

"Við fengum okkar færi til að bæta við þriðja markinu eftir þessa rosalegu byrjun þar sem við komumst tvisvar yfir á fyrstu mínútunum. Fólk fékk alla vega helling fyrir peninginn," sagði Ármann.

Skagamenn fengu dauðafæri til að auka forskotið í fyrri hálfleik og þá vildu þeir í tvígang fá vítaspyrnu, þegar brotið virtist á Albert Hafsteinssyni og þegar Ármann var togaður niður í vítateignum.

„Færin voru til staðar en þriðja markið kom ekki. Já, þetta virtist vera vítaspyrna en hvað getur maður sagt? Þetta var fyrsti leikur dómarans í þessari deild og kannski þorði hann ekki að dæma. Ég átti að fá víti þegar tveir Víkingar toguðu mig niður í teignum. Ég hef ekki fengið eitt einasta víti undanfarin tvö ár þótt ég verði hvað eftir annað fyrir þessu. Það hlýtur að koma að því. En við gefum dómaranum það að þetta var fyrsti leikurinn og nú er hann búinn að ná úr sér sviðsskrekknum,“ sagði Ármann og brosti.

Þið bökkuðuð aftar á völlinn snemma í leiknum eftir að þið náðuð 2:1 forystunni. Hefðuð þið ekki átt að bíða með það?

„Jú, svo sannarlega, en það sem gerðist var að í seinni hálfleiknum hættum við hreinlega að hlaupa. Við gerðum þetta vel í fyrri hálfleik, bökkuðum en hlupum mikið og fengum flottar sóknir. En í seinni hálfleik veit ég ekki hvað gerðist, það er líklega einhverri panik um að kenna að við dettum niður, reynum að halda þessari stöðu og það tókst ekki,“ sagði Ármann.

Þið eruð bara með fjögur stig og ljóst að það er erfið barátta fram undan.

"Já, það er staðreynd sem við verðum að lifa með. Við eigum stórleik gegn Þrótti næsta sunnudag og þá er bara að gíra sig upp í það í þessari viku. Sá leikur er gífurlega mikilvægur fyrir framhaldið. Við gerðum vel á móti Fjölni og í 45 mínútur í kvöld og við verðum að taka það með okkur. Fyrri hálfleikurinn í kvöld er með því besta sem við höfum gert hingað til," sagði Ármann Smári Björnsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert