Dýrkeypt klofsnerting Halls

Sindri Snær Magnússon, leikmaður ÍBV, í baráttu við Thiago Pinto …
Sindri Snær Magnússon, leikmaður ÍBV, í baráttu við Thiago Pinto Borges, leikmann Þróttar, í leik liðanna í dag. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV er stigi á eftir toppliði Stjörnunnar eftir fyrsta leik 6. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. ÍBV vann Þrótt R., 1:0, í Laugardal en Þróttarar voru manni færri allan seinni hálfleik.

Vendipunktur leiksins var á 39. mínútu þegar Hallur Hallsson, fyrirliði Þróttar, fékk að líta beint rautt spjald fyrir að slá eða klípa í klof Danans Mikkel Maigaard, að því er virtist. Maigaard hafði gert sitt til að espa Hall upp, fyrst með því að brjóta á honum með tæklingu úti við hliðarlínu, og svo með því að rúlla vatnsbrúsa í átt til Halls þegar þeir lágu í grasinu, við varamannaskýli Þróttara. Hallur brást illa við, gekk að Maigaard sem var á leið í burtu, og virtist slá hann laust í punginn. Þóroddur Hjaltalín dómari sneri baki í atvikið en Hjalti Þór Halldórsson, fjórði dómari, sá líklega hvað gerðist og eftir því var dæmt.

Þróttarar voru afar óánægðir með dóminn en spjöruðu sig ágætlega manni færri. ÍBV skoraði hins vegar sigurmark sitt, á 56. mínútu, þegar fyrirgjöf Maigaards fór alla leið í markið, framhjá Trausta Sigurbjörnssyni sem hefði svo sannarlega átt að gera betur.

Eyjamönnum tókst ekki að bæta við marki, þrátt fyrir að fá færi til þess, og sluppu því raunar með skrekkinn því heimamenn komust í nokkrar álitlegar sóknir og börðust fram á síðustu mínútu við að ná í stig út úr leiknum. 

ÍBV er nú með 10 stig eftir sex leiki en Þróttarar eru með 4 stig í næstneðsta sæti.

Þróttur 0:1 ÍBV opna loka
90. mín. Mikkel Maigaard (ÍBV) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert