„Fáránlegt að við höfum ekki unnið í dag“

Fylkismenn hafa ekki fengið mörg tækifæri til að fagna í …
Fylkismenn hafa ekki fengið mörg tækifæri til að fagna í sumar. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Það er fáránlegt að við náðum ekki okkar fyrsta sigri í þessum leik í dag,“ sagði Albert Brynjar Ingason, leikmaður Fylkis, eftir svekkjandi jafntefli gegn Fjölni í kvöld. Lokatölur urðu 2:2 en Fjölnir jafnaði metin í uppbótartíma. Fylkismenn þurfa því enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri í deildinni þessa leiktíðina.

„Við erum enn og aftur að fá á okkur mark eftir fast leikatriði en það hefur verið vandamál í sumar. Munurinn á leikjum okkar í sumar og þessum leik er hins vegar hvernig við bregðumst við þessu. Við sýndum góðan karakter og stjórnuðum þessum leik frá a til ö.

Albert Brynjar átti mjög góðan leik en þurfti að fara af velli vegna meiðsla, skömmu eftir markið sem hann skoraði. „Þetta eru sömu meiðslin og í fyrra, í náranum. Ég gerði þau mistök þá að spila of mikið á þeim og það var ekki góð hugmynd. Ég vona að þetta sé nú ekki alvarlegt í þetta skiptið.“

Framherjinn var sammála þeirri fullyrðingu að Fylkismenn hafi verið miklu betri í leiknum.

„Við erum farnir að sýna okkar rétta andlit. Eftir leikinn gegn ÍBV hópuðum við okkur aðeins saman og núllstilltum okkur sem lið. Síðustu þrír leikir hafa verið góðir og við getum tekið svo margt með okkur úr þessum leik í kvöld. Ef við höldum áfram að spila svona fara sigrarnir að detta inn hjá okkur,“ sagði Albert Brynjar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert