„Tapsinfonía“ frumflutt ef Ísland vinnur

Fagna íslensku strákarnir sigri í Ósló á miðvikudaginn?
Fagna íslensku strákarnir sigri í Ósló á miðvikudaginn? AFP

Norski gamanleikarinn Håvard Lilleheie hefur síðustu daga undirbúið sig fyrir vináttulandsleik Noregs og Íslands í knattspyrnu sem fer fram í Ósló á miðvikudaginn. Hann vonast eftir sigri Íslands, til að geta spilað frumsamið lag.

Tapi Norðmenn leiknum er Lilleheie með lag tilbúið, tileinkað tapinu. Hann, ásamt hópi fólks, tók upp svokallaða „tapsinfóníu“ en hún verður leikin ef Ísland sigrar Noreg.

„Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hvetja leikmenn til dáða. Okkur finnst „tapsinfónían“ góð leið til að fá landsliðsmenn til að gera sitt allra besta. Þeir vilja alls ekki heyra þetta lag,“ sagði Lilleheie við VG í Noregi.

Tónlistarmaðurinn Raymond Enoksen, sem tók þátt í upptökum á laginu, segir að landsliðsmenn eigi að líta framtakið jákvæðum augum. „Við viljum upplifa augnablik þar sem við erum stolt af landsliðinu.“

Erik Loe, formaður knattspyrnusambands Noregs, hefur enga trú á því að lagið verði spilað á Ullevaal-leikvanginum í Ósló á miðvikudag. Ástæðan fyrir því er einföld, hann hefur ekki trú á því að Ísland vinni Noreg.

Frétt VG og klippur með upptökum á laginu má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert