Undirbúningur fyrir toppslaginn hafinn

Leikmenn íslenska liðsins fagna mark sínu gegn Hvít-Rússum í undankeppni …
Leikmenn íslenska liðsins fagna mark sínu gegn Hvít-Rússum í undankeppni EM 2017. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er komið til Skotlands, nánar tiltekið til Falkirk, en þar verður leikið við Skota í undankeppni EM, föstudaginn 3. júní.  Fyrsta æfing hópsins var í dag og tóku allir leikmenn þátt í henni að undanskilinni Dagnýju Brynjarsdóttur, sem kemur til móts við hópinn á morgun.

Æfingin í dag var létt og leikandi og snerist fyrst og fremst um að ná ferðalaginu úr leikmönnum sem flestir léku með félagsliðum sínum annaðhvort í gær eða fyrradag.  Æfingin í dag fór fram á gervigrasi eins og aðrar æfingar í þessari ferð en leikið verður á gervigrasi á Falkirk-vellinum á föstudaginn.

Skotar eru sem kunnugt er í efsta sæti riðilsins, hafa unnið alla sína leiki, eins og íslenska liðið en Skotar hafa leikið einum leik meira.  Þetta verður síðasti heimaleikur Skota í riðlinum en árangur þeirra á heimavelli hefur verið mjög sannfærandi, hafa skorað 20 mörk en fengið einungis á sig eitt.  Þetta verður að sama skapi síðasti útileikur Íslands í riðlinum en næsti heimaleikur er gegn Makedóníu, á Laugardalsvelli, þriðjudaginn 7. júní kl. 19:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert