Fótbolti er ekki svona ósanngjarn

Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis.
Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vissum að þetta er besta liðið í deildinni og að þetta yrði erfiður leikur en þetta var samt svekkjandi,“  sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, eftir 1:0 tap fyrir FH í Kaplakrika í kvöld. 

„Skipulagið gekk vel, að láta þá fara út á kantana og koma með fyrirgjafir. Við vörðumst því vel en við vorum agalega slappir með boltann og klaufalegir þegar við unnum hann, tókst ekki að skila fyrstu sendingu til að geta fært okkur aðeins framar. Við vorum bara lélegir með boltann.  Við komumst aðeins inn í leikinn þegar þeir voru komnir með forystu og það losnaði aðeins um leikinn þegar fleiri sénsar voru teknir. Við sýndum að þegar við vöndum okkur með boltann erum við flottir, höfum svo sem verið það í síðustu leikjum en mér er alveg sama hvort við hefðum hitt bara í mann, bara ef við hefðum fengið þrjú stig. Við þurfum að fara fá stig, það er bara þannig,“  bætti Hermann við.

Fylkir er enn án sigurs í deildinni, hefur gert tvö jafntefli en þjálfarinn hefur síður en svo gefist upp.  „Þetta er mjög brött brekka en eins og við vitum inni í klefa þá hafa verið gríðarleg batamerki eftir hræðilega byrjun svo ég herðist bara við þetta og held ótrauður áfram. Ef við höldum áfram að spila okkar leik og getum verið með boltann, haldið skipulagi og varist vel. Eins og varnarvinnan var í dag þá hef ég ekki áhyggjur. Ég hef verið það lengi í fótbolta að vita að hann er ekki svona ósanngjarn, að allt detti á móti þér, og við eigum eftir að fá fullt af stigum, það er fullt eftir af þessu móti,“ bætti Hermann ákveðinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert