Jafntefli nánast slæm úrslit fyrir bæði lið

Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Ég er mest ánægður með það að Breiðablik skyldi ekki skora. Við lögðum það upp að verja markið okkar og stigið sem við höfðum og ég er ánægður með að það skyldi takast,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir markalaust jafntefli við Breiðablik í níundu umferð Pepsi-deildar karla.

Ólafur var sammála að leikurinn hafi verið bragðdaufur í meira lagi.

„Það var svo sem ekki mikið að gerast í þessum leik. Mér fannst Blikarnir vera svona ofan á lungann úr leiknum. Þeir voru meira með boltann en sköpuðu sér nú ekki mikið. Svo fengum við náttúrulega frábært færi til að stela sigrinum.“

Leikirnir í EM-fríinu hafa margir hverjir verið frekar slakir og því ekki úr vegi að spyrja hvort einhver EM-þynnka sé að plaga menn.

„Nei, nema kannski í ykkur blaðamönnunum! Nei nei, þetta var svona frekar hægt og rólegt eins og flestallir leikir hafa verið í þessari EM-pásu. Það hefur nú verið frekar rólegt yfir þeim. Hver ástæðan er, veit ég ekki.“

Valsmenn sitja í níunda sæti að loknum níu umferðum og það er staða sem Ólafur er ekki sáttur við.

„Nei nei, ég er alla vega ekki með þann stigafjölda sem ég vildi vera með. Jafntefli hér í dag er nánast slæm úrslit fyrir bæði liðin. Það er stutt upp en það er líka stutt niður þannig að menn verða að vera varkárir,“ sagði Ólafur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert