Okkur var refsað fyrir mistökin

Egill Jónsson (4) fylgist með Þorsteini Má Ragnarssyni og Arnþóri …
Egill Jónsson (4) fylgist með Þorsteini Má Ragnarssyni og Arnþóri Inga Kristinssyni berjast um boltann. mbl.is/Eggert

„Við gerum okkur seka um slæm mistök og okkur er refsað fyrir það. Víkingar eru með gott lið og þetta má ekki gera á móti þeim,“ sagði Egill Jónsson, miðjumaður Víkings Ó., eftir 2:0-tap gegn Víkingi R. í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld í Fossvoginum.

Enski sóknarmaðurinn Gary Martin skoraði bæði mörk leiksins. Það fyrra úr vítaspyrnu á 10. mínútu og síðara markið með góðu skoti úr vítateignum tveimur mínútum síðar. Mörkin virtust slá gestina talsvert út af laginu.

„Seinni hálfleikurinn var betri hjá okkur en við byrjum leikinn illa og aðlögumst ekki nógu fljótt að þeirra leikstíl og þeir refsa. Í seinni hálfleik breytum við til og það gengur aðeins betur en við þurfum hins vegar heilt yfir að gera betur,“ bætti Egill við.

Miðjumaðurinn Gísli Eyjólfsson var kallaður aftur til Breiðabliks en hann var í láni hjá Ólsurum. Egill segir að hans verði vissulega saknað en þeir léku saman á miðri miðjunni í síðustu leikjum. „Gísli er frábær leikmaður og við munum sakna hans. Við erum hins vegar með fína menn sem koma inn og erum með breiðari hóp en menn halda.“

Stutt er í næsta leik en Þróttur R. sækir Ólafsvík heim í nýliðaslag á þriðjudaginn. „Við verðum svekktir í kvöld en sem betur fer er stutt í næsta leik og við byrjum að undirbúa okkur fyrir hann á morgun,“ sagði Egill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert