Sáttur þegar við höldum hreinu

Viktor Jónsson og Aleix Egea í baráttunni í kvöld.
Viktor Jónsson og Aleix Egea í baráttunni í kvöld. mbl.is/Eggert

Milos Milojevic, þjálfari Víkings R., var ánægður með sína menn eftir 2:0-sigur á Víkingi Ólafsvík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld.

„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið besti leikurinn okkar í sumar en þetta er eins og við viljum spila. Við vorum stöðugir í 90 mínútur en það hefur vantað. Út frá stöðugleika var þetta okkar besti leikur,“ sagði Milos við mbl.is eftir leikinn í Víkinni í kvöld.

„Mér fannst við spila mjög góða knattspyrnu í svona 55 mínútur á móti Stjörnunni hér heima og á móti Val heima bæði í deild og bikar. Þetta var gott í kvöld en ég hefði viljað sjá eitt mark í viðbót. Strákarnir vita að ég er alltaf sáttur þegar við höldum hreinu,“ bætti Milos við.

Þjálfarinn var ánægður með byrjun leiksins en heimamenn skoruðu mörkin á 10. og 12. mínútu. „Það var akkúrat kaflinn þar sem við hefðum átt að gera alveg út um leikinn og létta lífið fyrir alla. Víkingur Ólafsvík er gott lið og það er ekki auðvelt að spila á móti þeim, langt því frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert