„Staðan er óviðunandi“

Bjarni Guðjónsson, Kristinn Kjærnested og Guðmundur Benediktsson.
Bjarni Guðjónsson, Kristinn Kjærnested og Guðmundur Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristinn Kjærnested, formaður stjórnar knattspyrnudeildar KR, segir menn í Vesturbænum vera á fullu að leita að eftirmanni Bjarna Guðjónssonar sem var rekinn sem þjálfari liðsins í gærkvöld. 

„Við erum bara á fullu í þessu. Það var alltaf frí á æfingu í dag á planinu hjá strákunum. Það er æfing seinni partinn á morgun og ég reikna með að Arnar Gunnlaugsson sjái bara um þá æfingu því að ég efast um að við verðum komnir inn með mann fyrr en eftir helgina,“ sagði Kristinn í samtali við mbl.is.

Kristinn segir Arnar ekki koma til greina sem aðalþjálfara KR.

„Nei, en hann er hugsaður áfram í þjálfarateyminu sem kemur til með að klára þetta tímabil.“

Hvenær tilkynntuð þið Bjarna þessa ákvörðun?

Seint í gærkvöldi, já. Bæði Bjarna og Gumma. Svo fór morgunninn í að láta leikmenn vita.

Hvernig er andinn í hópnum og hvernig tók Bjarni tíðindunum?

„Bara karlmannlega. það gera sér allir grein fyrir því að staðan er óviðunandi en það er líka mikilvægt að leikmenn átti sig á því að þeir verða að rétta sinn hlut.“

Eruð þið bara að skoða íslenska þjálfara eða jafnvel að leita út fyrir landsteinana?

„Þetta er bara í fullri vinnslu. Ég get ekki sagt meira í bili,“ sagði Kristinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert