Þrenna Garðars í miklum markaleik

Tryggvi Hrafn Haraldsson og Ásgeir Marteinsson í sókn ÍA en …
Tryggvi Hrafn Haraldsson og Ásgeir Marteinsson í sókn ÍA en Þorri Geir Rúnarsson er til varnar.

Garðar Gunnlaugsson skoraði þrennu þegar ÍA vann Stjörnuna 4:2 í lokaleik níundu umferðar Pepsi-deildar karla. Leikurinn var bráðfjörugur allan tímann og liðin skiptust á að  sækja grimmt. Skagamenn komust upp í níunda sæti deildarinnar með sigrinum en Stjarnan situr áfram í fimmta sæti.

Það virðist fylgja fótboltaleikjum á Vesturlandi að þeir byrja með látum. Stjarnan skoraði eftir aðeins fimm mínútna leik, þegar Hilmar Árni Halldórsson átti góðan sprett fram völlinn, sem endaði með hnitmiðuðu skoti í nærhornið á marki Skagamanna.

ÍA jafnaði metin þremur mínútum síðar. Nokkuð hættulaus sending kom inn á teiginn og þar ætlaði Jóhann Laxdal að skýla boltanum aftur fyrir markið. Ekki tókst betur til en svo, að Jóhann fékk boltann í hendina og Gunnar Jarl Jónsson dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Garðar Gunnlaugsson skoraði af öryggi úr vítinu en þetta var hans sjötta mark í sumar.

Staðan að loknum fjörugum og skemmtilegum fyrri hálfleik var því jöfn, 1:1.

 Seinni hálfleikur byrjaði rólega en á 66. mínútu skoraði Brynjar Gauti Guuðjónsson snoturt mark fyrir gestina og þá færðist heldur betur líf í tuskurnar.  Sjö mínútum síðar skoraði Garðar Gunnlaugsson annað mark sitt, þegar boltinn datt fyrir fætur hans í teignum eftir að Ármann Smári hafði skallað í stöngina.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Darren Lough eftir góðan samleik við Tryggva Hrafn Haraldsson og Skagamenn skyndilega komnir yfir. Garðar var aldeilis ekki hættur og fullkomnaði þrennuna 18 mínútum fyrir leikslok með þrumuskoti.

Þetta var áttunda mark Garðars í sumar og hann er nú markahæstur í Pepsi-deildinni.

Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en höfðu ekki erindi sem erfiði og ÍA sigraði í skemmtilegum leik, 4:2

ÍA 4:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Hallur Flosason (ÍA) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert