„Eitt það skemmtilegasta sem við gerum“

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, hlakkar til kvöldsins.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, hlakkar til kvöldsins. mbl.is/Eggert

„Þetta er eitt það skemmtilegasta sem við gerum í íslenskum fótbolta, að spila við erlend lið í Evrópukeppni. Tilhlökkunin er mjög mikil,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, en Hlíðarendapiltar taka á móti danska liðinu Bröndby í 1. umferð Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 21.00 á Valsvellinum.

„Ég held að liðið sé eitt af stærri nöfnunum á Norðurlöndunum, geysilega öflugt lið. Við erum búnir að vera að reyna að afla okkur upplýsinga um liðið en þeir skiptu um þjálfara um daginn. Þeir hafa reyndar ekki spilað alvöru leik undir hans stjórn og við rennum því pínu blint í sjóinn,“ bætti Ólafur við.

Þjálfarinn viðurkennir að það sé öðruvísi að undirbúa lið fyrir leiki í Evrópukeppni. „Auðvitað er þetta öðruvísi undirbúningur að því leyti að við erum að fara að spila við annað lið. Tilhlökkun leikmanna hlýtur að vera mjög mikil og það er alltaf gaman að spreyta sig á móti þeim bestu.“

Nánar er rætt við Ólaf og Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfara Vals, í meðfylgjandi myndskeiði:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert