Bröndby stakk af í seinni hálfleik

Skallaeinvígi í leik Vals og Bröndby í kvöld.
Skallaeinvígi í leik Vals og Bröndby í kvöld. Ljósmynd/Þórður

Bröndby sigraði Val, 4:1, í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildar karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld. Síðari leikur liðanna fer fram í Kaupmannahöfn eftir viku og óhætt er að segja að möguleikar Valsmanna á að komast í 2. umferðina séu hverfandi litlir.

Gestirnir hófu leikinn af talsverðum krafti og voru nálægt því að skora eftir fimm mínútur en Anton Ari Einarsson í marki Vals varði þá skalla frá Kamil Wilczek.

Leikurinn róaðist eftir upphafsmínúturnar og Valsmenn léku af skynsemi. Kristinn Ingi Halldórsson fékk þeirra besta færi nokkrum mínútum fyrir lok hálfleiksins en Frederik Rönnow varði vel frá honum úr góðu færi. Staðan markalaus að loknum fyrri hálfleik.

Gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Kamil Wilczek fékk sendingu inn í teiginn vinstra megin frá Teemu Pukki og skoraði úr þröngu færi.

Sjö mínútum síðar skoraði Wilczek annað mark sitt og Bröndby þegar hann skallaði boltann yfir Anton Ara í marki Vals eftir fyrirgjöf frá hægri. Teemu Pukki skoraði þriðja mark gestanna þegar rúmlega fimmtán mínútur voru búnar af seinni hálfleik.

Cristian Jakobsen skoraði fallegasta mark kvöldsins rúmum tíu mínútum fyrir leikslok. Hann tók þá upp hinn gamalkunna smjörhníf og klíndi boltanum upp í samskeytin. Valsmenn skoruðu sárabótamark með síðustu spyrnu leiksins, Einar Karl Ingvarsson var þar að verki, og 4:1-sigur Bröndby staðreynd í kvöld.

Valur 1:4 Bröndby opna loka
90. mín. Leik lokið Öruggur 4:1-sigur Bröndby hér í kvöld. Gestirnir spýttu í lófana í seinni hálfleik eftir markalausan fyrri hálfleik og lönduðu stórum sigri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert