Lars hrósaði Conte

Antonio Conte í leik Ítalíu og Spánar.
Antonio Conte í leik Ítalíu og Spánar. AFP

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, segir að Antonio Conte hafi gert frábæra hluti með lið Ítala sem mætir Þýskalandi í átta liða úrslitunum á EM annað kvöld.

Ítalskur blaðamaður var á fréttamannafundi Íslands í Annecy í morgun og spurði Lars um hans skoðun á ítalska liðinu.

„Það er mjög áhugavert hvernig Ítalir hafa spilað á mótinu. Þeir hafa alltaf átt hæfileikaríka einstaklinga en hérna hafa þeir verið geysilega skipulagðir og það hefur gefið þeim góð úrslit. Ég ber mikla virðingu fyrir Conte og því sem hann hefur gert. Í liðinu eru stór nöfn frá toppliðum en hjá þeim er liðsheildin númer eitt," sagði Lars.

Ítalir unnu sinn riðil, sigruðu Belga og Svía en töpuðu svo fyrir Írum í leik sem skipti þá ekki máli. Í sextán liða úrslitunum lögðu þeir síðan fráfarandi Evrópumeistara Spánverja á sannfærandi hátt, 2:0.

Ef Ítalir vinna Þjóðverja og Íslendingar leggja Frakka að velli mætast Ísland og Ítalía í undanúrslitum í Marseille á fimmtudagskvöldið kemur.

Conte kveður ítalska liðið að keppninni lokinni en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning sem knattspyrnustjóri Chelsea.

Lars Lagerbäck á fundinum í morgun.
Lars Lagerbäck á fundinum í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert