Garðar markahæsti í átján ár

Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Garðar B. Gunnlaugsson eigast við í …
Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Garðar B. Gunnlaugsson eigast við í leik liðanna á dögunum. Garðar skoraði sigurmark ÍA. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Skagamaðurinn Garðar B. Gunnlaugsson er fyrsti leikmaðurinn í átján ár sem skorar tíu mörk í fyrri umferð efstu deildar karla í knattspyrnu hér á landi.

Hann er jafnframt með fleiri mörk á þessum tímapunkti en fjórmenningarnir sem eiga markametið í deildinni, 19 mörk, höfðu skorað þegar viðkomandi Íslandsmót var hálfnað.

Pétur Pétursson setti nýtt markamet árið 1978 þegar hann skoraði 19 mörk fyrir Skagamenn. Hann gerði þá sex mörk í fyrri umferðinni en þrettán í seinni umferðinni.

Guðmundur Torfason jafnaði metið árið 1986 þegar hann skoraði 19 mörk fyrir Fram. Guðmundur skoraði þá níu mörk í fyrri umferðinni og tíu í þeirri síðari.

Þórður Guðjónsson jafnaði metið árið 1993 þegar hann skoraði 19 mörk fyrir Skagamenn. Þórður gerði þá sex mörk í fyrri umferðinni en þrettán í þeirri seinni, rétt eins og Pétur gerði fimmtán árum fyrr.

Tryggvi Guðmundsson jafnaði metið árið 1997 þegar hann skoraði 19 mörk fyrir ÍBV. Tryggvi gerði þá átta mörk í fyrri umferðinni og ellefu í þeirri síðari.

Þess ber að geta að fjórmenningarnir léku allir í tíu liða deild og höfðu því 18 leiki til að skora þessi 19 mörk en ekki 22 leiki eins og Garðar gæti spilað í ár.

Steingrímur var með ellefu

Árið 1998 var Steingrímur Jóhannesson kominn vel á veg að lokinni fyrri umferð deildarinnar en hann hafði þá skorað 11 mörk fyrir ÍBV í fyrstu níu leikjunum. Hann náði aðeins að gera fimm í þeirri síðari en varð eftir sem áður markakóngur deildarinnar með 16 mörk.

Matthías Hallgrímsson skoraði 10 mörk fyrir Skagamenn í fyrri umferðinni árið 1978. Hann bætti hinsvegar aðeins einu við í þeirri síðari en þá tók Pétur Pétursson við keflinu og raðaði inn mörkum eins og áður kom fram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert