Hefði viljað fá jöfnunarmarkið fyrr

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis.
Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Miðað við hvernig leikurinn þróaðist, þá er ég sáttur með stigið. En ég hefði viljað sjá seinna markið okkar koma aðeins fyrr svo við hefðum betri tækifæri á að vinna leikinn,“ segir Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir jafntefli liðsins við Val í Grafarvoginum í kvöld.

„ Fyrstu 30 og síðustu 30 mínúturnar voru góðar. Það var góður karakter sem skilaði okkur alla veganna einu stigi í dag.“

Valsmenn voru betri í upphafi seinni hálfleiks en Fjölnismenn stigu upp síðustu mínúturnar og settu pressu á Valsmenn. Spurður hvað hafi kveikt í mönnum segir Ágúst: 

„Menn áttuðu sig á því að við vorum á heimavelli og þurftum að fara að gera eitthvað. Við fórum bara að spila einfaldan fótbolta og litum vel út fyrir utan það að ég vildi sjá markið koma fyrr.“ 

Sjá frétt mbl.is: Sein pressa Fjölnismanna skilar stigi

„Það var samt 20–30 mínútna kafli í lok fyrri hálfleiks og byrjun seinni þar sem Valsmenn voru góðir og í raun unnu sér inn stigið.“

Hann hrósaði sérstaklega Birni Snæ sem kom inn á í seinni hálfleik fyrir Martin Lund Pedersen. „Þetta var frábært mark hjá Birni sem gaf okkur þetta stig. Frábærlega klárað hjá honum og hann var frábær þar á undan eftir að hann kom inn á. Hann er mjög kvikur og kórónaði þetta með þessu marki. Marcus [Solberg] kom líka frábær inn í þetta og veldur miklum usla. Heilt yfir var liðið allt að stíga upp.“

„Það er svo gott fyrir framhaldið eftir að hafa tapað síðustu tveimur leikjum að ná þessu karakterstigi. Það er alltaf gott að fá eitt stig með góðum karakter því við erum að spila vel. Nú kemur svo verslunarmannahelgi og svo eigum við ÍBV í Eyjum. Það verður mjög erfitt verkefni og við þurfum að spila okkar besta leik til að eiga möguleika þar.“

Ingimundur Níels Óskarsson var að spila sinn fyrsta heila leik fyrir Fjölni eftir félagsskiptin frá Fylki. 

„Hann sýndi mikinn karakter og barðist. Svo var fúlt í lokin þegar dæmd var rangstaða á hann [þegar Ingimundur kom boltanum í mark]. Við þurfum bara að skoða það í sjónvarpinu,“ segir Ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert