Grindavík vann toppslaginn - ÍR og Einherji efst

Grindavíkurkonur fagna sigri.
Grindavíkurkonur fagna sigri. Ljósmynd/umfg.is

Grindavík styrkti stöðu sína á toppi B-riðils 1. deildar kvenna í kvöld með sigri á Haukum í toppslag, ÍR endurheimti toppsæti A-riðils og Einherji frá Vopnafirði er kominn í efsta sætið í C-riðli.

Grindavík vann Hauka á allsannfærandi hátt, 3:0, á Grindavíkurvelli en það voru erlendu leikmennirnir Linda Eshun frá Gana, Lauren Brennan frá Norður-Írlandi og Sashana Campbell frá Jamaíka sem sáu um mörkin.

Haukar halda öðru sætinu en Augnablik er nú stigi á eftir þeim og vann Gróttu 6:0 á Seltjarnarnesi. 

Fjölnir vann Álftanes 2:1 og nálgast efstu liðin. Lára Marý Lárusdóttir skoraði sigurmarkið í uppbótartíma en áður hafði Harpa Lind Guðnadóttir skoraði fyrir Fjölni og Oddný Sigurbergsdóttir fyrir Álftanes.

Keflavík fór uppfyrir Aftureldingu með 3:1 í viðureign félaganna á Keflavíkurvelli.

Grindavík er með 25 stig, Haukar 21, Augnablik 20, Fjölnir 15, Keflavík 13, Afturelding 12, Álftanes 8 og Grótta ekkert.

Í eina leik A-riðils vann ÍR sigur á Skínanda, 2:0, í Garðabæ. Andrea Magnúsdóttir og Guðrún Ósk Tryggvadóttir gerðu mörk ÍR sem er með 26 stig í efsta sætinu. HK/Víkingur er með 24 stig og á  til góða leik gegn Fram annað kvöld. Víkingur Ólafsvík er með 21 stig og Þróttur R. 17 en þau mætast líka annað kvöld.

Einherji er í fyrsta skipti á toppi riðils í 1. deild kvenna en liðið vann Hamrana frá Akureyri, 1:0, á Vopnafirði í kvöld. Barbara Kopacsi skoraði sigurmarkið.

Einherji er með 13 stig á toppnum, Sindri 12 og Hamrarnir 12 stig. Þá er Tindastóll með 6 stig og á þrjá leiki til góða á efstu liðin og getur hæglega blandað sér í baráttuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert