Hann vildi bara ekki inn

Róbert Örn Óskarsson var mjög góður í marki Víkings í …
Róbert Örn Óskarsson var mjög góður í marki Víkings í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Willum Þór Þórsson þurfti að sætta sig við fyrsta tapið sem þjálfari KR í Pepsi-deild karla en Vesturbæingar töpuðu 1:0 fyrir Víkingum í lokaleik 12. umferðar

„Við settum þá undir mikla pressu í fyrri hálfleik og vorum fljótir að vinna boltann. Við stjórnuðum leiknum mjög vel og sendum boltann hratt á milli okkar. Það var erfitt að brjóta þá niður með mannmarga vörn. Ég hef ekki séð marga leiki í sumar þar sem Víkingur er gjörsamlega undir í baráttunni,“ sagði Willum í samtali við mbl.is

Sigurmark Víkinga virtist vera nokkuð slysalegt fyrir Stefán Loga Magnússon, markvörð KR. Aðspurður hvort Stefán Logi hefði átt að verja skot Vladimirs Tufegdzic svaraði Willum:

„Ef þú spyrðir hann[Stefán Loga], þá er hann það góður markmaður að hann myndi svara: „Já, ég átti að taka þennan bolta.“ 

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Framherjar KR náðu ekki að setja mark sitt á leikinn, þrátt fyrir nokkur ágæt færi.

„Morten Beck Andersen var auðvitað að spila á móti mannmargri vörn og við vildum brjóta þetta upp með öðruvísi týpum. Við settum Jeppe [Hansen] inn og svo Hólmbert [Aron Friðjónsson] og fjölguðum frammi. Það lukkaðist allavega nóg til þess að fá dauðafæri og nóg af færum til að jafna og klára leikinn.

Hann vildi bara ekki inn og það gerist stundum í fótbolta að markvörðurinn er í stuði og markvörðurinn hjá þeim [Róbert Örn Óskarsson] átti stórleik.“ 

Hólmbert Aron Friðjónsson hefur enn ekki skorað fyrir KR í deildinni og orðrómur um brotthvarf hans frá KR verður æ háværari. Willum var spurður hvort einhver fótur væri fyrir slíkum sögusögnum.

„Ekki hugmynd. Ég veit bara að það eru mjög margir sem hafa áhuga,“ sagði Willum að lokum.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert