Baráttusigur Víkinga gegn KR

Víkingur úr Reykjavík skaust í sjötta sæti Pepsi-deildar með naumum sigri gegn KR í lokaleik 12. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Lokatölur urðu 1:0 og eru KR-ingar enn í slæmum málum í neðri hluta deildarinnar, aðeins fimm stigum frá fallsæti.

KR hefur gengið prýðilega undir stjórn Willums Þórs Þórssonar. Vesturbæingar stóðu sig vel í Evrópukeppninni gegn svissneska liðinu Grassshopper og unnu að auki öruggan sigur gegn Fylki í  11.umferð Pepsi-deildarinnar.

Það voru því bjartsýnir Vesturbæingar sem tylltu sér í stúkuna á Víkingsvellinum í kvöld. Framan af fyrri hálfleik var innistæða fyrir bjartsýninni. KR var meira með boltann og gestirnir virkuðu líklegri til að skora í frekar rólegum leik.

Eftir um hálftíma leik kom hins vegar fyrsta mark leiksins og það voru Víkingar sem skoruðu það. Óttar Magnús Karlsson var í byrjunarliðinu hjá Víkingi eftir frábæra innkomu í sigurleik Víkinga gegn Þrótti og hann lagði upp mark fyrir Vladimir Tufegdzic.

Óttar fékk sendingu rétt utan vítateigs og náði frábærum snúningi. Boltinn endaði hjá Tufegdzic sem skaut ágætu skoti að markinu. Stefán Logi Magnússon, markvörður KR náði ekki að verja skotið en líklega hefði Stefán átt að gera betur þarna.

Það lifnaði heldur betur yfir leiknum eftir þetta mark og KR-ingar voru nálægt því að jafna nokkrum sinnum. Kennie Chopart átti tvö góð skot sem Róbert Örn Óskarsson varði glæsilega og það voru Víkingar sem héldu til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik með nauma forystu.

Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu en fáum marktækifærum. KR dældi sendingum inn í teiginn hjá Víkingum en miðverðir heimamanna voru vandanum vaxnir. Marko Perkovic lék sinn fyrsta leik með Víkingum og virðist smellpassa í vörnina.

Hólmbert Aron Friðjónsson hefur ekki fundið sig í sumar og hann fékk gott færi fyrir KR skömmu eftir að hann kom inn á sem varamaður. Framherjinn hávaxni hitti hins vegar ekki boltann aleinn í teignum og virðist gjörsamlega rúinn sjálfstrausti.

Víkingar gerðu vel í að halda fengnum hlut og lönduðu mikilvægum sigri í baráttuleik.

Víkingur R. 1:0 KR opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert