Afar mikilvægur sigur FH

Ingibjörg Rún Ólafsdóttir og félagar hennar hjá FH mæta ÍA …
Ingibjörg Rún Ólafsdóttir og félagar hennar hjá FH mæta ÍA í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FH innbyrti gríðarlega mikilvæg stig í fallbaráttu Pepsi-deildar kvenna þegar liðið lagði keppinauta sína í þeim slag, ÍA, að velli með tveimur mörkum gegn einu í 10. umferð deildarinnar á Kaplakrikavelli í kvöld. 

Bryndís Hrönn Kristinsdóttir kom FH yfir strax á sjöttu mínútu leiksins eftir laglegan undirbúning Aldísar Köru Lúðvíksdóttur. Aldís Kara lagði boltann í hlaupaleiðina fyrir Bryndísi Hrönn sem tók boltann vel með sér og skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. 

Cathrine Dyngvold sem gekk til liðs við ÍA frá sænska liðinu Kopparbergs/Göteborg fyrr í þessum mánuði opnaði markareikning sinn fyrir liðið þegar hún jafnaði metin á 59. mínútu leiksins. Maren Leósdóttir sendi þá hárnákvæma sendingu á Dyngvold sem skoraði með föstu skoti. 

Það var síðan nýjasti liðsmaður FH, Alex Alugas, sem reyndist hetja liðsins, en hún skoraði sigurmark liðsins á 63. mínútu leiksins. Alugas sem gekk til liðs við FH frá Sindra nýverið tók þá vel á móti langri sendingu og skoraði með skoti í nærhornið. 

Alugas skoraði sjö mörk í sex leikjum fyrir Sindra í 1. deildinni í sumar og heldur nú uppteknum hætti með sínu nýja liði. FH hafði eingöngu skorað þrjú mörk í níu leikjum liðsins það sem af er sumri áður en kom að leiknum í kvöld. Það er gulls ígildi fyrir FH að fá nýtt blóð í sóknarleikinn.

FH er komið með tíu stig eftir þennan sigur og er nú fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. ÍA er aftur á móti í slæmri stöðu á botni deildarinnar, en liðið er með fjögur stig og er fimm stigum frá Selfossi sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsæti. 

FH 2:1 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:1 sigri FH.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert