Náðum að sýna Selfossandann

Chante Sandiford, markvörður Selfoss, var ánægð með spilamennsku liðsins í …
Chante Sandiford, markvörður Selfoss, var ánægð með spilamennsku liðsins í seinni hálfleik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við vorum opnar í vörninni í fyrri hálfleik og gáfum þeim of mikið pláss. Við sýndum hjarta að koma til baka í seinni hálfleik, en það dugði ekki til,“ sagði Chanté Sandiford, fyrirliði Selfoss, eftir 5:3-tap gegn ÍBV í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Þó að þær hafi verið komnar með þriggja marka forskot í hálfleik hengdum við ekki haus og reyndum eins og við gátum að jafna allt til loka. Úrslitin hefðu getað orðið miklu verri ef við hefðum gefið eftir en við börðumst vel í seinni hálfleik og náðum að sýna Selfossandann,“ sagði Sandiford í samtali við mbl.is eftir leik.

Staðan var 4:1 fyrir ÍBV í leikhléi og Eyjakonur bættu fimmta markinu við eftir 40 sekúndur í síðari hálfleik.

„Auðvitað var þetta ekki byrjunin sem við vildum í seinni hálfleik. Þetta er skortur á einbeitingu, en í framhaldinu fórum við að spila vel. Í síðustu umferð áttum við góðan fyrri hálfleik gegn Fylki en lélegan seinni hálfleik. Það snerist við í kvöld, en við þurfum að ná að tengja báða leikhlutana saman og ná góðum níutíu mínútum. Við munum finna lausnir á þessu vandamáli,“ sagði Sandiford.

Selfoss hafði aðeins skorað eitt mark í síðustu þremur deildarleikjum og fyrirliðinn fagnaði því að mörkunum fjölgaði í kvöld.

„Við eigum auðvitað að vinna leiki þegar við skorum þrjú mörk. En við erum að minnsta kosti farnar að skora, mörkin hefur vantað hjá okkur að undanförnu. Nú þurfum við bara að binda vörnina betur saman. Það eru tveir stórir leikir framundan, gegn Breiðabliki og Stjörnunni, og við þurfum að þjappa okkur vel saman fyrir þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert