Þær eru með sterkt hjarta

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hulda Sigurðardóttir bar fyrirliðabandið fyrir Fylki gegn Val í kvöld, þar sem Valskonur unnu sanngjarnan 3:0-sigur í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna. Hulda sá bæði slæma og góða punkta eftir leikinn í samtali við mbl.is.

„Mér fannst við gera góðar skiptingar í hálfleik. Við vorum svolítið andlausar í fyrri hálfleik og kannski ekki alveg tilbúnar. Kannski vorum við ennþá að missa okkur yfir leiknum gegn Selfossi. Við lítum jákvætt á þetta, lærum af þessu og komum sterkar til leiks eftir tvær vikur.

Við náðum að spila boltanum miklu betur í seinni hálfleik. Það gekk ekkert hjá okkur að þruma boltanum bara upp í fyrri hálfleik. Þær eru með sterkt hjarta þarna í vörninni, sem tók alla skallabolta.“

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hulda hrósar framherjum liðsins fyrir þeirra hlutverk, sem hefur aukist við brotthvarf Berglindar Bjarkar Þorvaldsdóttur til Breiðabliks.

„Kristín [Erna Sigurlásdóttir] hefur staðið sig rosalega vel og það er frábært að hafa hana frammi. Hún er góð að taka á móti boltanum í lappir og tekur líka menn á, maður veit aldrei hvað hún er að fara að gera.“

Fylkir er í sjötta sæti deildarinnar með 10 stig að loknum 10 umferðum. Hulda viðurkennir að það sé ekki á pari við væntingar.

„Nei, alls ekki, en við höldum bara áfram og lítum björtum augum á framtíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert