Öruggt hjá Val gegn Fylki

Arna Sif Ásgrímsdóttir úr Val og Elma Lára Auðunsdóttir úr …
Arna Sif Ásgrímsdóttir úr Val og Elma Lára Auðunsdóttir úr Fylki í baráttu á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Ófeigur

Valur er áfram í toppbaráttu Pepsi-deildar kvenna eftir afar sannfærandi sigur gegn Fylki. Lokatölur urðu 3:0 og Valskonur eru áfram í þriðja sæti með 21 stig að loknum 10 leikjum. Fylkir er í sjötta sæti með 10 stig.

Leikurinn fór fram að Hlíðarenda í blíðskaparveðri. Valur hefur fjölda landsliðskvenna í sínum röðum en heimakonur byrjuðu frekar illa á Íslandsmótinu. Nú virðist hins vegar góður taktur í stjörnum prýddu liði Vals og gestirnir úr Árbænum áttu aldrei möguleika í kvöld.

Vesna Elísa Smiljkovic skoraði fallegt mark á 17. mínútu og gaf tóninn. Þetta er fyrsta mark Vesnu í deildinni í sumar og greinilegt að henni var töluvert létt að sjá boltann í netinu. Hin unga Thelma Lóa Hermanssdóttir hefði getað jafnað leikinn skömmu síðar en þrumaði boltanum yfir markið í góðu færi.

Vesna Elísa Smiljkovic fagnar marki sínu.
Vesna Elísa Smiljkovic fagnar marki sínu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Valur hélt undirtökunum og yfirburðirnir voru reyndar töluverðir í fyrri hálfleik. Heimakonur áttu 10 skot að markinu á fyrstu 45 mínútum leiksins en Fylkir átti aðeins tvö skot að marki. Rúna Sif Stefánsdóttir var áberandi á vinstri kantinum hjá Val og átti fjölmargar góðar sendingar inn í teig Fylkis.

Það var einmitt eftir eina slíka sem markadrottningin Margrét Lára Viðardóttir skoraði níunda mark sitt í deildinni. Sendingin frá Rúnu var fullkomin og þessi mikil markahrókur nýtti færið sitt afskaplega vel.

Staðan í hálfleik var því 2:0 Valskonum í vil og var sú forysta síst of mikil miðað við gang leiksins.

Fylkir gerði tvöfalda skiptingu í hálfleiknum og gestirnir voru nokkuð sprækir á upphafskafla seinni hálfleiks. Það fjaraði svo hægt og rólega út og Valur náði aftur tökum á leiknum.

Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri. Valur fékk nokkur ágæt færi en heimakonur þurftu að bíða þar til í uppbótartíma eftir þriðja markinu.

Elín Metta Jensen, sem var mjög spræk í leiknum, fékk þá vítaspyrnu eftir brot Elmu Láru Auðunsdóttur og Margrét Lára skoraði af öryggi úr spyrnunni. Lokatölur í frekar ójöfnum leik, 3:0.

Margrét Lára Viðarsdóttir (t.h) í baráttu við Elmu Láru Auðunsdóttur.
Margrét Lára Viðarsdóttir (t.h) í baráttu við Elmu Láru Auðunsdóttur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

 Valur átti sigurinn skilið í kvöld. Heimakonur lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik og þurftu ekki að hafa mikið fyrir því að klára verkefnið í þeim síðari. Rúna Sif var öflug vinstra megin og Mist Edvardsdóttir var sömuleiðis mjög góð þann tíma sem hún lék. Elín Metta Jensen var lífleg á báðum köntum og gerði bakvörðum Fylkis lífið leitt. Margrét Lára er alltaf líkleg í framlínunni og sýndi í þessum leik að ekki má gleyma henna í eina sekúndu, þá skorar hún mark.

Valur er í þriggja liða einvígi um titilinn og hefur næg gæði til að fara alla leið. Það er þó spurning hvort að slök byrjun liðsins í deildinni verði til þess að Valskonur missi af tækifærinu að hampa þeim stóra.

Fylkiskonur reyndu af krafti en höfðu ekki  nægjanlega mikil gæði til að stríða sterku liði Vals. Elma Lára Auðunsdóttir var sterk í leiknum og Hulda Hrund Arnardóttir átti ágæta spretti. Besti maður liðins var þó markvörðurinn Audrey Rose Baldwin, sem bjargaði Fylki frá stærra tapi.

Fylkiskonan Shu-o Tseng reynir skot í kvöld.
Fylkiskonan Shu-o Tseng reynir skot í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Valur 3:0 Fylkir opna loka
90. mín. Rúna Sif Stefánsdóttir (Valur) á skot í þverslá Vá! Negla af um 25 metra færi en boltinn fer af krafti í slána á marki Fylkis.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert