Bikarmeistararnir aftur í bikarúrslit

Kristinn Ingi Halldórsson úr Val og Andrew Pew úr Selfossi …
Kristinn Ingi Halldórsson úr Val og Andrew Pew úr Selfossi eigast við í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Selfoss og Valur mættust í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Borgunarbikarsins, á Jáverk-vellinum á Selfossi í kvöld og höfðu Valsmenn betur 2:1. 

Bikarmeistarar Vals fá því tækifæri til að verja titilinn á Laugardalsvellinum. Andstæðingar þeirra þar verða annað hvort Eyjamenn eða FH-ingar. 

Staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik á Selfossi í kvöld en heimamenn áttu skalla í stöng strax á 14. mínútu. Þar var á ferðinni Jose Tirado en Selfyssingar voru nokkuð hættulegir í föstum leikatriðum. 

Valsmenn gátu andað léttar á 49. mínútu þegar Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði laglegt mark beint úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Fram að því hafði leikurinn verið nokkuð opinn. Valsmenn náðu ágætum tökum á leiknum eftir þetta og bættu verðskuldað við öðru marki á 81. mínútu. Selfyssingar gáfu þá Bjarna Ólafi Eiríkssyni færi á því að gefa fyrir markið frá vinstri. Góð fyrirgjöf og Orri Sigurður náði hörkuskalla í teignum. Vignir varði vel en Kristinn Ingi Halldórsson náði frákastinu og skoraði af stuttu færi.

Selfyssingar hleyptu lífi í leikinn undir lokin. James Mack skallaði í netið hjá Val eftir hornspyrnu Ivans Martinez á 89. mínútu. Selfyssingar fengu tvö tækifæri í uppbótartímanum en tókst ekki að jafna.

Bikarævintýri þeirra sem fór á flug með afar óvæntum sigri á KR í Frostaskjólinu er lokið. 

Selfoss 1:2 Valur opna loka
90. mín. Haukur Ingi Gunnarsson (Selfoss) á skalla sem fer framhjá Aukaspyrna úti á kanti. Sent inn á teiginn en Haukur náði ekki alveg að stýra boltanum á markið. Fín tilraun engu að síður. Smá stress fyrir bikarmeistarana.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert