Frábær endurkoma Hattar

Orri Freyr Hjaltalín skoraði tvö mörk fyrir Magna Grenivík gegn …
Orri Freyr Hjaltalín skoraði tvö mörk fyrir Magna Grenivík gegn KF. mbl.is/Golli

Tvö efstu lið 2. deildar karla í knattspyrnu, Afturelding og ÍR, unnu bæði 1:0-sigra gegn andstæðingum sínum í kvöld. Afturelding lagði Ægi að velli og ÍR hafði betur gegn Njarðvík.

Wentzel Steinarr R Kamban tryggði Aftureldingu sigurinn gegn Ægi sem er í næstneðsta sæti deildarinnar með 11 stig, fjórum stigum frá Völsungi sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsæti. Afturelding er í öðru sæti deildarinnar með 26 stig eftir þennan sigur. 

ÍR trónir á toppi deildarinnar með 31 stig, en það var Arnór Björnsson sem tryggði dramatískan sigur Breiðhyltinga gegn Njarðvík með marki á lokaandartökum leiksins. Falldraugurinn er ekki horfinn á braut úr Njarðvík, en liðið er með 15 stig, fjórum stigum frá fallsæti.

Magni vann öruggan 5:1-sigur gegn KF og heldur í við topplið deildarinnar. Magni er með 22 stig og þessi sigur þýðir að liðið er fjórum stigum frá Aftureldingu sem er í öðru sæti deildarinnar. Kristinn Þór Rósbergsson og Orri Freyr Hjaltalín skoruðu tvö mörk hvor og Andrés Vilhjálmsson eitt fyrir Magna. Jakob Auðun Sindrason klóraði í bakkann fyrir KF. 

Þá mjakaði Höttur sér frá fallsvæði deildarinnar með 3:2-sigri gegn Vestra eftir frábæra endurkomu. Leikur Hattar og Vestra á Egilsstöðum var bráðfjörugur. Blikarnir Ernir Bjarnason og Sólon Breki Leifsson komu Vestra tveimur mörkum yfir með mörkum í fyrri hálfleik.

Þá tóku leikmenn Hattar sig taki og mörk frá Jordan Chase Tyler, Garðari Má Grétarssyni og Högna Helgasyni tryggðu Hetti sigurinn. Höttur fikraði sig frá fallsvæðinu með þessum sigri, en liðið er komið með 16 stig og er nú fimm stigum frá fallsæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert