Fylkir safnar liði fyrir fallbaráttuna

Hermenn Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, Marko Pridigar, Sonni Ragnar Nattestad og …
Hermenn Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, Marko Pridigar, Sonni Ragnar Nattestad og Þorvaldur Árnason, formaður knattspyrnudeildar Fylkis. Ljósmynd/Fylkir

Fylkir sem situr í næstneðsta sæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu með átta stig fékk í dag til liðs við sig tvo leikmenn til þess að heyja lífróður með Árbæingum það sem eftir lifir sumars. Það eru færeyski varnarmaðurinn Sonni Ragnar Nattestad og slóvenski markvörðurinn Marko Pridigar. Þetta kemur fram á vefsíðunni fótbolti.net.

Sonni Ragnar Nattestad kemur til Fylkis á láni frá FH, en lánssamningurinn gildir út yfirstandandi leiktíð. Sonni Ragnar hefur leikið 13 landsleiki fyrir Færeyjar, en hann kom til FH í vetur og lék einn leik í deildinni og tvo leiki í bikarnum fyrir FH.

Marko Pridigar lék síðast með kýpverska liðinu Ayia Napa, en lengst af sínum ferli hefur hann leikið með slóvenska liðinu Maribor og varð fimm sinnum slóvenskur meistari með liðinu. Þá hefur Pridigar leikið í forkeppni Meistaradeildar Evrópu og í Evrópudeildinni með Maribor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert