Fyrsti undanúrslitaleikurinn á Selfossi

Richard Sæþór Sigurðsson, Arnar Logi Sveinsson og félagar í Selfossliðinu …
Richard Sæþór Sigurðsson, Arnar Logi Sveinsson og félagar í Selfossliðinu skelltu KR-ingum í 32ja liða úrslitum og eru nú komnir í undanúrslitin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undanúrslitaleikur í bikarkeppni karla í knattspyrnu fer í fyrsta skipti fram á Selfossi í kvöld þegar ríkjandi bikarmeistarar Vals koma í heimsókn.

Selfyssingar hafa einu sinni áður leikið í undanúrslitum bikarkeppni karla en það var fyrir 47 árum. Þeir komust þangað árið 1969 með því að sigra B-lið Fram og Vals í sextán og átta liða úrslitum keppninnar.

Undanúrslitaleikurinn var gegn Akureyringum, sem þá voru með sameiginlegt lið Þórs og KA undir merkjum ÍBA, og biðu Selfyssingar lægri hlut á Melavellinum í Reykjavík, 1:3. Tryggvi Gunnarsson skoraði mark Selfyssinga og kom þeim yfir í leiknum.

Akureyringar stóðu síðan uppi sem bikarmeistarar eftir sigur á Skagamönnum, 3:2, á ísilögðum Melavellinum 6. desember.

Óhætt er að segja að þetta sé stærsti leikur karlaliðs Selfoss í fjögur ár, eða síðan liðið lék í úrvalsdeildinni árið 2012. Þar hafði það leikið einu sinni áður, árið 2010. Valsmenn höfðu betur í báðum heimsóknum sínum á Selfoss þessi tvö ár en þeir unnu þar, 3:2 árið 2010 og 1:0 tveimur árum síðar.

Á leið sinni í undanúrslitin vann Selfoss fyrst Njarðvík í 2. umferð keppninnar, 2:1, þá KR 2:1 í 32ja liða úrslitunum, síðan Víði 4:3 og loks Fram 2:0.

Valsmenn unnu Fjölni 1:0 í 32ja liða úrslitum, þá Víking R. 3:2 og Fylki 5:0 í 8 liða úrslitum. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert