„Hélt að við gætum stolið þessu“

James Mack með boltann í leiknum gegn Val í kvöld.
James Mack með boltann í leiknum gegn Val í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Ég er mjög svekktur með úrslitin en um leið mjög ánægður með frammistöðu okkar hér í kvöld,“ sagði markaskorarinn James Mack eftir að Selfoss féll úr keppni í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu í kvöld. Bikarmeistarar Vals komu í heimsókn á Selfoss og sigruðu 2:1.

Valur komst í 2:0 í seinni hálfleik en Selfyssingar minnkuðu muninn þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma og gerðu svo harða hríð að marki Vals í uppbótartímanum.

„Við gerðum okkar besta og börðumst til loka. Ég hélt að við gætum stolið þessu í lokin en Valur er frábært lið og þeir náðu að halda aftur af okkur í lokin. Þeir komu hingað og gerðu það sem þeir þurftu að gera, við gerðum okkar besta og það var næstum því nóg,“ sagði Mack í samtali við mbl.is eftir leik.

Valur leikur í Pepsi-deildinni og Selfoss í Inkasso-deildinni en það var ekki að sjá að það væri mikill munur á frammistöðu liðanna í kvöld. 

„Gunni [Gunnar Borgþórsson] lagði leikinn frábærlega upp fyrir okkur og leikskipulagið virkaði hjá okkur. Valsmenn spiluðu af krafti og við náðum ekki alveg að halda í við þá allan leikinn. Þeir spila deild ofar en við en það skiptir ekki máli í bikarleik. Það er snilldin við þessa keppni, að allir geta unnið,“ bætti Mack við og sagði að Selfyssingar gætu horft óhræddir til framtíðar.

„Alveg eins og í leiknum gegn KR sýndum við í kvöld að við getum spilað við þessi lið. Þetta er vonandi framtíðin á Selfossi. Selfoss á skilið að eiga lið í efstu deild og leikir eins og þessir geta breytt hugarfarinu hjá félaginu og lyft því á hærri stall. Ég er ánægður að fá að taka þátt í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert