„Þeir settu okkur undir mikla pressu“

Bjarni Ólafur Eiríksson, fyrirliði Vals.
Bjarni Ólafur Eiríksson, fyrirliði Vals. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Þetta var hrikalega erfitt, við mættum mjög flottu Selfossliði og ég er hrikalega ánægður með að vera kominn í úrslit. Frábært,“ sagði Bjarni Ólafur Eiríksson, fyrirliði Vals, eftir sigurinn á Selfossi í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu í kvöld.

„Í bikarkeppninni skiptir engu máli í hvaða deild liðin eru, þetta eru allt jafnerfiðir leikir. Við fengum mjög erfiðan leik í dag og þeir settu okkur undir mikla pressu hérna í lokin. Við erum kannski heppnir að vera ekki að spila framlengingu núna, markmaðurinn okkar var frábær í dag,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is eftir leik. „Það má segja að hann hafi unnið þetta fyrir okkur.“

Valur komst tveimur mörkum yfir í seinni hálfleik en Selfyssingar minnkuðu muninn þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma og gerðu svo harða hríð að marki Vals í uppbótartímanum.

„Við vorum dálítið lengi í gang. Það var pínu dapurt að við náðum ekki að halda boltanum betur í fyrri hálfleik, við misstum hann svolítið mikið eins og í síðasta leik gegn Fylki í deildinni. Við vorum með yfirhöndina en höldum allt of illa í boltann áður en við komumst yfir. Þannig að það er nokkuð sem við þurfum að skoða,“ sagði Bjarni Ólafur ennfremur.

Bjarna Ólafi er alveg sama hvort hann mætir FH eða ÍBV í úrslitaleiknum en liðin mætast í Eyjum á morgun.

„Það skiptir í rauninni engu máli hvort við fáum FH eða ÍBV í úrslitunum. Það er frábært að vera komnir í úrslitin og við ætlum auðvitað að halda bikarnum á Hlíðarenda. Það er erfitt að vinna þennan bikar en það er ennþá erfiðara að verja hann og það væri frábært ef okkur tækist það,“ sagði Bjarni Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert