Ungir og efnilegir leikmenn sveltir

Óttar Magnús Karlsson fagnar marki sínu fyrir Víking Reykjavík gegn …
Óttar Magnús Karlsson fagnar marki sínu fyrir Víking Reykjavík gegn FH fyrr í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fótbolti.net birti í gær ansi athyglisverða grein þar sem fjallað er um hversu lítinn spiltíma ungir íslenskir leikmenn hafa fengið í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar, en ástandið er litlu skárra í Inkasso-deild karla í knattspyrnu.

Tekið er saman í greininni hversu margar mínútur leikmenn sem eru enn á 2. flokksaldri hafa fengið að spila í Pepsi-deildinni annars vegar og Inkasso-deildinni hins vegar. Niðurstöðurnar eru sláandi hvað varðar Pepsi-deildina og ekkert sérlega vænlegar í Inkasso-deildinni. 

Leikmenn á 2. flokksaldri hafa spilað 1,7% af leiktímanum í Pepsi-deildinni og 7,6% af leiktímanum í Inkasso-deildinni. Það eru 23 leikmenn í þessum aldursflokki sem hafa fengið tækifæri í Pepsi-deildinni af 259 leikmönnum sem leikið hafa í deildinni. Þá hefur 31 leikmaður í þessum aldursflokki fengið spiltíma í Inkasso-deildinni af 250 leikmönnum deildarinnar.

Mínútur sem leikmenn á 2. flokks aldri hafa fengið í Pepsi-deildinni:

689 - Breiðablik
665 - Víkingur R.
477 - ÍA
226 - KR
180 - Stjarnan
150 - Fylkir
66 - Valur
63 - Fjölnir
18 - ÍBV
5 - FH
0 - Víkingur Ó.
0 - Þróttur

Einungis þrír leikmenn á 2. flokksaldri hafa fengið hlutverk í liðum sínum í Pepsi-deildinni síumar sem telja má umtalsvert, en það eru þeir Alfons Sampsted í Breiðabliki (59%) og Óttar Magnús Karlsson (32%) og Erlingur Agnarsson (30%) hjá Víkingi Reykjavík.

Mínútur sem leikmenn á 2. flokks aldri hafa fengið í Inkasso-deildinni:

2.010 - Leiknir F.
1.962 - HK
1.807 - Selfoss
1.490 - Haukar
912 - Fjarðabyggð
688 - Keflavík
652 - Huginn
537 - Þór
453 - Leiknir R.
330 - Fram
54 - Grindavík
0 - KA

Það eru níu strákar sem hafa verið í stórum hlutverkum í sínum liðum í Inkasso-deildinni, en þeir leika allir með liðum í neðri hluta deildarinnar. Athyglisvert er að tvö efstu lið deildarinnar, KA og Grindavík, veita leikmönnum á 2. flokksaldri annars engan leiktíma (KA) og hins vegar afar takmarkaðan (Grindavík). 

Þessir leikmenn eru: Birkir Valur Jónsson, HK (100%), Kristófer Páll Viðarsson, Leikni F.(90%), Aron Gauti Magnússon, Fjarðabyggð (84%), Alexander Helgason, Haukum (74%), Sveinn Aron Guðjohnsen, HK (73%), Arnór Gauti Ragnarsson, Selfoss (70%), Stefán Ómar Magnússon, Huginn (60%), Arnar Logi Sveinsson, Selfossi (60%) og Valdimar Ingi Jónsson, Leiknir F. (56%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert