Dyrnar enn opnar fyrir Eið Smára

Eiður Smári Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu gegn Frakklandi …
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu gegn Frakklandi á EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, tilkynnti í dag leikmannahóp íslenska liðsins sem mætir Úkraínu í fyrstu umferð í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Rússlandi árið 2016. Eiður Smári Guðjohnsen var ekki valinn í hópinn að þessu sinni, en Heimir segir koma til greina að Eiður Smári leiki með liðinu síðar í undankeppninni. 

„Framtíð Eiðs Smára í fótboltanum er óljós og meðan svo er töldum við ekki rétt að velja hann í landsliðshópinn. Ég ræddi við umboðsmanninn hans og hleraði það hvernig málum væri háttað hjá Eiði Smára og hvað framtíðin bæri í skauti sér. Það liggur ekki fyrir hvað Eiður Smári gerir í framhaldinu og á meðan svo er ákváðum við að velja hann ekki,“ sagði Heimir á blaðamannafundi í dag. 

Það er allt opið enn fyrir Eið Smára í framhaldinu og hann kemur að sjálfsögðu til greina ef hann ákveður að halda áfram að spila. Það er hins vegar eins og áður segir óvíst hvað hann gerir og ég veit ekki hvaða ákvörðun hann tekur á næstunni. Við berum mikla virðingu fyrir Eiði og sér í lagi því sem hann gerði fyrir okkur í Frakklandi. Við höldum öllu opnu hvað landsliðsferil hans varðar,“ sagði Heimir um stöðu Eiðs Smára hjá íslenska landsliðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert