Grátlegt hjá Íslandsmeisturunum í Cardiff

Blikar óðu í færum en skoruðu aðeins eitt mark.
Blikar óðu í færum en skoruðu aðeins eitt mark. mbl.is/Árni Sæberg

Markaskorarar eru yfirleitt dýrasta knattspyrnufólk sem hægt er að kaupa á leikmannamarkaðinum. Ástæðan er einföld; að skora mörk er nefnilega það erfiðasta sem hægt er að gera í fótbolta.

Þessu fengu leikmenn Íslands- og bikarmeistara Breiðabliks í kvennaflokki að kynnast óþyrmilega í gær, þegar liðið gerði 1:1 jafntefli gegn serbneska liðinu Spartak Subotica í undanriðli Meistaradeildar Evrópu. Blikar óðu í færum allan leikinn en fengu svo blauta tusku í andlitið í uppbótartíma, þegar hin bandaríska Alex Quincey jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu.

Yfirburðir skiluðu ekki mörkum

Breiðablik byrjaði leikinn varlega en náði svo algjörlega tökum á leiknum. Sóknarlotur Íslandsmeistaranna komu sem öldur á varnarmúr Serbanna en sambland af óheppni, klaufaskap og góðum leik markvarðar Subotica varð til þess að Breiðablik skoraði aðeins eitt mark. Það gerði Berglind Björg Þorvaldsdóttir á 69. mínútu eftir góðan undirbúning Svövu Rósar Guðmundsdóttur. Berglind fékk sendingu frá Svövu, tók boltann með sér inn í teiginn og skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

Fanndís Friðriksdóttir fékk fjölmörg færi til að klára leikinn en markvörður og markstangir stríddu landsliðskonunni ótal sinnum. Subotica refsaði svo Blikum eins og áður segir og það voru grautfúlir leikmenn Breiðabliks sem fóru af velli í gær.

Eigum að vera betri en þessi lið

„Þetta voru ósanngjörn úrslit. Við vorum miklu betri en þetta var bara svona sláin-út leikur hjá okkur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, eftir leik. „Við fengum fín færi nánast allan leikinn og þær eiga eitt skot á markið, liggur við.“

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert