Mikilvæg stig Fylkis á Skaganum

Eva Núra Abrahamsdóttir skoraði eina markið á Skaganum.
Eva Núra Abrahamsdóttir skoraði eina markið á Skaganum. mbl.is/Styrmir Kári

Fylkir vann í kvöld mikilvægan sigur á ÍA á Akranesi í Pepsí-deild kvenna í knattspyrnu. Með sigrinum þokaði Fylkir sér frá fallsvæðinu en ÍA og KR eru í fallsætunum. 

Eva Núra Abrahamsdóttir skoraði sigurmark Fylkis á Skaganumá 76. mínútu. Fylkir hefur nú 13 stig eins og FH í 6.-7. sæti. Selfoss er með 10 stig í 8. sæti, FH er með 8 og KR með 6 stig. KR var í jöfnum leik á móti Þór/KA í kvöld en Sandra Maria Jessen tryggði Akureyrarliðinu öll stigin með marki á 59. mínútu.  

Valur fann taktinn á ný í Kaplakrika og vann stórsigur á FH 4:0. Dóra María Lárusdóttir skoraði tvö fyrstu mörkin og Margrét Lára Viðarsdóttir bætti þriðja markinu við fyrir hlé. Laufey Björnsdóttir skoraði eina markið í síðari hálfleik og gulltryggði sigur Vals. 

Markaskorarar eru fengnir hjá netmiðlinum Úrslit.net

Staðan:

FH - Valur: 0:4 - Liðin - Leik lokið

ÍA - Fylkir: 0:1 - Liðin - Leik lokið

KR - Þór/KA: 0:1 - Liðin - Leik lokið

Íslandsmeistarar Stjörnunnar taka á móti ÍBV í Garðabænum. Atvikalýsingu frá leiknum er að finna hér

Margrét Lára sækir að marki FH í kvöld. Jeannette J …
Margrét Lára sækir að marki FH í kvöld. Jeannette J Williams gerir sig líklega til að grípa boltann. mbl.is/Þórður

Kl 19:58 Þór/KA landaði sigri gegn KR á Alvogen-vellinum og KR er eftir sem áður í botnsætinu með 6 stig. Þór/KA tekur 4. sætið af ÍBV eftir umferðina. 

Kl 19:55 Leikjunum er lokið á Skaganum og í Kaplakrika. Fylkir vann mikilvægan sigur 1:0 á Akranesi og er þá fimm stigum á undan ÍA og sjö stigum á undan KR. Valur náði sér aftur á strik eftir tap fyrir ÍBV á dögunum og vann FH 4:0. 

Kl 19:35 Mark! Árbæingar hafa tekið forystuna á Akranesi. Eva Núra Abrahamsdóttir skoraði á 76. mínútu. Fylkir gæti slitið sig frá fallbaráttunni með sigri en liðið er tveimur stigum á undan ÍA fyrir leik liðanna í kvöld. Málfríður Anna Eiríksdóttir bætti við fjórða marki VAls í Hafnarfirði. 

Kl 19:25 Mark! Tíðindi úr vesturbænum. Landsliðskonan Sandra María Jessen kom Þór/KA yfir gegn KR á 59. mínútu. Spurning hvernig KR bregst við þessu en liðið er í fallsæti og þarf á stigi eða stigum að halda. 

Kl 18:50 Flautað hefur verið til leikhlés í leikjunum þremur. Hvorki hefur verið skorað á Skaganum né í Frostakjóli. KR, ÍA og Fylkir eru öll í botnbaráttunni og mikilvæg stig í boði. 

KL 18:46 Mark! Valsliðið sem tapaði síðasta leik er í stuði í kvöld. Valur er nú 3:0 yfir en Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þriðja markið á gömlu markamínútunni, 43. mínútu. 

Kl 18:43 Mark! Dóra María Lárusdóttir er búin að bæta við öðru marki fyrir Val. Að þessu sinni eftir sendingu frá Margréti Láru Viðarsdóttur. 

Kl 18:24 Mark! Fyrsta markið í leikjunum þremur er komið. Landsliðskonan fyrrverandi Dóra María Lárusdóttir skoraði fyrir Val og kom liðinu yfir í Kaplakrika. Leikir Dóru í efstu deild eru nú komnir á þriðja hundraðið en hún lék sinn 200. leik í efstu deild gegn KR fyrr í mánuðinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert