Stefnum í lokakeppnina

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari.
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Skapti

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur leik í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Rússlandi árið 2018 þegar liðið mætir Úkraínu í Kiev mánudaginn 5. september. Fram kom á blaðamannafundi sem haldinn var til þess að kynna leikmannahóp íslenska liðsins og komandi verkefni að markmiðið væri skýrt, það er að verða fyrsta íslenska knattspyrnulandsliðið til þess að komast í lokakeppni heimsmeistaramóts.

„Við ætlum okkar að komast í lokakeppni heimsmeistaramótsins og stefnum allir í þá átt. Við vonumst til þess að það gangi eftir en gerum okkur á sama tíma grein fyrir því að það verður afar erfitt að ná því markmiði. Það eru fjögur lið í riðlinum okkar sem léku í lokakeppni Evrópumótsins í Frakklandi og það er einungis eitt sæti sem gefur öruggt sæti í lokakeppninni. Það er lykilþáttur í áframhaldandi velgengni okkar að við vinnum áfram í einkennum okkar, sem eru sterkur varnarleikur og árangursríkur sóknarleikur,“ sagði Heimir Hallgrímsson, sem heldur í þriðju undankeppni sína sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

„Við höfum nýtt tímann vel síðan mótið í Frakklandi kláraðist. Við höfum farið yfir verkferlana hjá okkur og hvernig við viljum vinna í framhaldinu. Það er margt sem við munum gera á sama hátt og við höfum gert hingað til. Það hefur sýnt sig að það verklag sem við höfum tamið okkur virkar og það væri skrýtið að fara að kollvarpa vinnuaðferðum okkar. Við erum afskaplega ánægð með að það verða litlar breytingar á starfsliðinu okkur frá því sem var í Frakklandi og það er mikill kostur,“ sagði Heimir um þær vinnuaðferðir sem landsliðið mun notast við í komandi undankeppni.

Nánar er rætt við Heimi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert