Höfum spilað ágætlega en fáum ekkert

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta var gríðarlega svekkjandi,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 2:1-tap gegn Breiðabliki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Stjarnan er í 3. sæti deildarinnar með 27 stig eftir leikinn, sjö stigum á eftir toppliði FH sem á auk þess leik til góða.

„Það er svekkjandi að fá þetta mark á sig hérna í lokin þegar við vorum með þvílíka pressu. Við töpum niður leiknum af því að menn eru ekki nógu einbeittir að dekka menn eftir aukaspyrnu frá miðju. Þetta er alveg glórulaus dekkning. Agaleysi og það fellir okkur í dag,“ sagði Rúnar en Höskuldur Gunnlaugsson skoraði sigurmark Blika með skalla eftir aukaspyrnu Olivers Sigurjónssonar frá miðjum vellinum.

Stjörnumenn höfðu pressað talsvert að marki Blika áður en Kópavogsliðið tryggði sér sigurinn. „Við herjuðum á þá en náðum ekki að koma boltanum inn. Við verðum að nýta allar þessar fyrirgjafir sem Damir hirti alltaf. Ég veit ekki hvað við fengum mörg innköst og fyrirgjafir sem við nýttum ekki vel.“

Stjörnumenn hafa einungis hlotið eitt stig í síðustu fjórum leikjum. „Við höfum spilað þessa leiki ágætlega en fáum ekkert út úr því. Það er stutt á milli þess að fá stig eða tapa. Frammistaðan er ágæt en við erum að tapa leikjum á föstum leikatriðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert