Erfitt en ekki ómögulegt

Gregg Ryder, þjálfari Þróttar.
Gregg Ryder, þjálfari Þróttar. mbl.is/Eva Björk

„Ég mundi ekki segja að við þurfum kraftaverk til þess að halda okkur uppi, við þurfum bara að vinna alla leikina. Það er ekki kraftaverk, heldur fótboltinn,“ sagði Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, eftir 1:1 jafntefli við ÍBV í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag.

Þróttur er á botni deildarinnar, níu stigum frá öruggu sæti, en Ryder hefur ekki gefið upp von. „Við erum í erfiðri stöðu og það verður mjög erfitt að halda sér uppi en alls ekki ómögulegt. Ef við getum sýnt frammistöðu eins og þessa er alltaf von,“ sagði Ryder og vísaði þar til síðari hálfleiksins í dag.

Liðið var 1:0 undir í hálfleik en kom heldur betur til baka eftir hlé og hefði hæglega getað tekið öll stigin þrjú.

„Þetta er sannkallaður leikur tveggja hálfleika. Við sýndum mikinn baráttuvilja í síðari hálfleik og mínir menn reyndu virkilega að koma til baka. Ef við hefðum spilað í fyrri hálfleik eins og við gerðum í þeim síðari hefðum við unnið leikinn. Þetta er því pirrandi, en leikmennirnir gáfu allt sem þeir áttu í síðari hálfleik. Þegar menn gera það getum við gengið stoltir af velli til stuðningsmannanna.“

En hvar hefur þessi frammistaða sem Þróttur sýndi í síðari hálfleiknum verið í sumar?

„Það er góð spurning. Við höfum sýnt góða frammistöðu en síðari hálfleikurinn í þessum leik er í fyrsta sinn í langan tíma sem ég hef séð ósvikna ástríðu og áræði hjá mínu liði. Tölfræðilega eigum við enn möguleika og ef við getum byggt á þessu í öllum leikjunum sem eftir er eigum við enn möguleika,“ sagði Ryder.

Hann þekkir vel til í Eyjum og var lengi þjálfari hjá ÍBV. Eyjamenn leita nú að aðalþjálfara, er það eitthvað sem Ryder hefur áhuga á?

„Nei, Þróttur er mitt félag, ég dýrka stuðningsmennina og ég mun halda þar áfram. Ég á enn verk að vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert