Eyjamenn misstu af gullnu tækifæri

Hart barist í vítateignum í leik ÍBV og Þróttar á …
Hart barist í vítateignum í leik ÍBV og Þróttar á Hásteinsvelli í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þróttur eygir enn veika von um að halda sæti sínu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir að hafa komið til baka gegn ÍBV í Eyjum í dag. Eftir skelfilegan fyrri hálfleik var allt annað að sjá til liðsins í þeim síðari sem skilaði þeim einu stigi, lokatölur 1:1. Eyjamenn misstu að sama skapi af gullnu tækifæri að stíga skref frá fallsvæðinu.

Eyjamenn spiluðu með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og þeir byrjuðu leikinn af miklum krafti. Þeir höfðu þegar fengið úrvalsfæri áður en þeir komust yfir strax á níundu mínútu. Þar var að verki Elvar Ingi Vignisson eftir vel útfærða sókn, eftir að Simon Smidt komst inn á teig og renndi boltanum fyrir. 1:0 fyrir ÍBV og ekki byrjunin sem Þróttarar vonuðust eftir.

Markið gaf Eyjamönnum byr undir báða vængi og þeir tóku leikinn algjörlega yfir. Aron Bjarnason og Smidt létu vaða eins og þeir gátu á markið og geta Þróttarar þakkað markverði sínum, Arnari Darra Péturssyni, að ekki hafi farið verr strax í upphafi. Hann hélt sínum mönnum algjörlega inni í leiknum með nokkrum glæsilegum vörslum í fyrri hálfleik, en að honum loknum var staðan 1:0 fyrir ÍBV.

Þróttarar byrjuðu síðari hálfleikinn mun betur en þann fyrri, en það gekk hins vegar enn illa að skapa sér færi. Þeir réðu hins vegar ferðinni og það skilaði sér á 72. mínútu þegar varamaðurinn Aron Þórður Albertsson skoraði, en markið var af skrautlegri gerðinni.

Aron átti þá þrumuskot að marki, boltinn fór beint á Derby Carrillo í marki Eyjamanna sem missti hann hins vegar á milli fóta sér og þaðan lak boltinn yfir línuna. Einkar klaufalegt og Þróttarar komnir inn í leikinn.

Þeir vöknuðu enn frekar við þetta og stjórnuðu ferðinni á meðan Eyjamenn sáu vart til sólar lengi vel. Akkurat öfugt frá fyrri hálfleiknum, en bæði lið fengu sín færi til að klára leikinn. Ekki tókst það, lokatölur 1:1 og fóru bæði lið því svekkt af velli.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn sem og alla hina í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

ÍBV 1:1 Þróttur opna loka
90. mín. ÍBV fær aukaspyrnu rétt utan teigs, hægra megin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert