Svo sem ekkert frábær leikur

FH-ingar voru stórhættulegir í föstum leikatriðum.
FH-ingar voru stórhættulegir í föstum leikatriðum. mbl.is/Alfons Finnson

„Þetta lítur náttúrlega vel út en það er samt þannig að það eru fimm leikir eftir. Sjö stiga forysta er góð og ég slæ ekkert hendinni á móti henni en það er samt nóg eftir í þessu,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, eftir 2:0 sigur gegn Víkingi í Ólafsvík. Davíð lék vel í leiknum og FH vann sanngjarnan sigur.

„Við þurfum að halda rétt á spilunum. Fjölmiðlar og aðrir spekúlantar geta talað um að mótið sé búið og annað slíkt en við verðum að mæta í leikina og gera þetta almennilega. Þetta gekk ágætlega í dag og þetta var góður sigur.“

Bæði mörk FH komu eftir hornspyrnur frá Jonathan Hendrickx.

„Við höfum verið mjög hættulegir eftir föst leikatriði, sérstaklega upp á síðkastið. Þetta eru frábærar hornspyrnur hjá Jonathan í báðum mörkunum. Hann [Cristian Martinez] er kannski ekki hávaxnasti markvörður heims og við náðum að nýta okkur það.“

Davíð Þór viðurkennir að FH hafi nú spilað betur en í kvöld en það séu stigin sem telja.

„Þetta var svo sem ekkert frábær leikur hjá okkur, þannig séð. Við vorum samt traustir og þau færi sem þeir fá í leiknum koma eftir smá kæruleysi hjá okkur. Við erum að verjast mjög vel sem lið og ef við höldum því áfram get ég kannski verið yfirlýsingaglaðari eftir 1-2 umferðir,“ sagði Davíð Þór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert