FH með níu fingur á bikarnum

Emil Pálsson er hér að koma FH-ingum í 2:0.
Emil Pálsson er hér að koma FH-ingum í 2:0. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Fátt getur komið í veg fyrir að Íslandsmeistarar FH verji titil sinn í knattspyrnu karla. FH sótti Víking Ólafsvík heim í 17. umferð Pepsi-deildarinnar í dag og vann örugglega 2:0. Þar með eru Hafnfirðingar með sjö stiga forskot á toppi deildarinnar þegar aðeins fimm umferðir eru eftir. Víkingar eru hins vegar komnir í fallbaráttu eftir frábæra byrjun á mótinu.

Fyrri hálfleikur var frekar jafn. FH hafði vissulega meira boltann en gekk ekkert sérstaklega vel að skapa sér færi. Atli Guðnason fékk fínt færi á fjærstöng en þrumaði beint á Cristian Martinez í marki Ólsara.

Hinn Atlinn í FH, þ.e. Atli Viðar Björnsson, er líklegast sá leikmnaður í íslenskum fótbolta, sem flest mörk hefur skorað á fjærstöng og á 44. mínútu bætti markahrókurinn enn í sarpinn. Hornspyrna Jonathan Hendricks fór í gegnum alla vörn Víkings og beint til Atla á fjærstönginni og eftirleikurinn var auðveldur.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var því 1:0, gestunum í vil.

Heimamenn voru mun sprækari framan af seinni hálfleik og þjörmuðu ágætlega að FH. Hrovje Tokic hafði ekki skorað í síðustu sex leikjum fyrir þennan leik og hann átti fínt viðstöðulaust skot eftir tæplega klukkutíma leik. Skotið fór naumlega framhjá en tilraunin var góð.

Tæpum hálftíma fyrir leikslok tvöfölduðu meistararnir forystuna. Emil Pálsson skoraði þá annað mark FH á fjærstöng eftir hornspyrnu Hendrickx. Emil skallaði boltann yfir línuna en það var ekki fyrr en aðstoðardómari lyfti flaggi sínu að markið var staðfest af dómara leiksins. Ekki var gott að sjá hvort að boltinn hafi allur farið yfir línuna en FH-ingar kærðu sig kollótta, enda komnir með hreðjatak á leiknum.

Það sem eftir lifði leiks, var fátt um marktækifæri og meistararnir gerðu bara nákvæmlega það sem þurfti til að landa stigunum þremur.

FH er því á réttri leið að verða Íslandsmeistari í áttunda sinn á tólf arum, sem verður að teljast ansi gott. Víkingar eru hins vegar komnir í fallbaráttu eftir úrslit kvöldsins, þar sem Fylkir krækti í stig gegn Fjölni.

FH-ingar sækja að marki Víkinga á Ólafsvíkurvelli í kvöld.
FH-ingar sækja að marki Víkinga á Ólafsvíkurvelli í kvöld. Ljósmynd/Alfons Finnsson
Víkingur Ó. 0:2 FH opna loka
90. mín. Hrvoje Tokic (Víkingur Ó.) á skot sem er varið Nielsen ver þetta þrumuskot með hægri hendinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert